Innlent

Krist­rún tekur annan hring

Árni Sæberg skrifar
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tilkynnti á dögunum að hún gæfi kost á sér í formannskjöri Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins þann 28. október næstkomandi.
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tilkynnti á dögunum að hún gæfi kost á sér í formannskjöri Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins þann 28. október næstkomandi. Vísir/Vilhelm

Kristrún Frostadóttir, alþingismaður og frambjóðandi til formanns Samfylkingarinnar, hefur ferð kringum landið á Akranesi á morgun. Hún segist vilja eiga opið samtal við fólkið í landinu og svara spurningum þess.

Síðasta vetur lagði Kristrún einnig land undir fót og hélt 37 opna fundi með fólki í heimabyggð þess undir yfirskriftinni Samræða um framtíðina.

„Nú ætla ég að taka annan hring — og í þetta sinn sem frambjóðandi til formanns í Samfylkingunni, jafnaðarmannaflokki Íslands. Það kemur ekkert í staðinn fyrir beint samtal við fólk,“ segir Kristrún í fréttatilkynningu. Á Facebooksíðu hennar má sjá hvar og hvenær fundirnir verða haldnir.

Í tilkynningu segir að fundirnir verði öllum opnir og fyrirkomulag þeirra afslappað. Kristrún muni flytja stutta framsögu og leitast síðan eftir samtali og ólíkum sjónarmiðum.

„Ég vil eiga opið samtal við fólk og svara spurningum. Og ég vil segja betur frá þeim hugmyndum sem ég setti fram í Iðnó um daginn þegar ég tilkynnti framboð til formanns. Þær hafa greinilega vakið athygli víða. Ég vil að við jafnaðarmenn förum aftur í kjarnann og náum virkari tengingu við venjulegt fólk um land allt,“ segir Kristrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×