Joe Biden núverandi forseti og fyrrverandi forsetinn Donald Trump héldu lokaávörp sín í nótt þar sem þeir reyndu að afla sínu fólki fylgis. Það er mikið í húfi fyrir Biden því líklegt þykir að Repúblikanar nái völdum í fulltrúadeildinni og jafnvel í öldungadeildinni einnig. Það myndi gera honum verulega erfitt fyrir að koma sínum málum í gegn þrátt fyrir að vera forseti landsins.
Demókratar eru nú með meirihluta í báðum deildum, en með litlum mun þó. Í kosningum á miðju kjörtímabili missir valdaflokkurinn yfirleitt nokkur þingsæti yfir til keppinautarins og nú gæti það reynst dýrkeypt. Þótt Biden sjálfur sé ekki í framboði nú þegar helmingur er liðinn af kjörtímabili hans eru kosningarnar álitnar ákveðin mælistika á frammistöðu hans í embætti.
Vinsældir hans hafa dalað síðustu mánuði í ljósi hárrar verðbólgu og aukinnar glæpatíðni. Þá hafa málefni ólöglegra innflytjenda einnig verið forsetanum erfið.