Nú í morgun höfðu repúblikanar tryggt sér 211 sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings en 218 sæti þarf til að ná meirihluta þar samkvæmt kosningaspávefnum Five Thirty Eight.
Reuters-fréttastofan, sem gefur repúblikönum 210 sæti til þessa, segir að úrslit séu enn óráðin í 33 einmenningskjördæmum, þar á meðal 21 af þeim 53 þar sem minnstu munaði á frambjóðendum flokkanna. Því sé líklegt að úrslitin ráðist ekki endanlega strax.
Flest þeirra kjördæma þar sem enn á eftir að telja atkvæði eru í Kaliforníu en nokkur eru í Nevada, Arzona og New York.
Enn lengra gæti verið í að úrslitin ráðist í öldungadeildinni þar sem endanlegra úrslita er enn beðið í Georgíu, Arizona og Nevada. Í þeim tveimur síðarnefndu gæti það tekið nokkra daga að lýsa sigurvegara en í Georgíu þarf að bíða eftir aukakosningum 6. desember þar sem hvorugur frambjóðandinn náði yfir fimmtíu prósent atkvæða.
Eins og sakir standa eru frambjóðendur demókrata með naumt forskot í Arizona en repúblikana í Nevada. Enn á eftir að telja fjölda utankjörfundaratkvæða þar. Skipti flokkarnir ríkjunum á milli sín kemur það ekki í ljós fyrr en eftir aukakosningarnar í Georgíu í desember hvor flokkurinn fer með völdin í öldungadeildinni á næsta ári.