Gengið hefur á ýmsu frá því að Musk keypti Twitter fyrir 44 milljarða dollara fyrir skemmstu. Hann hefur rekið stóran hluta starfsmanna fyrirtækisins, boðað breytingar á miðlinum sem voru settar í loftið en dregnar til baka jafnharðan aftur og hæðst að fyrrverandi starfsmönnum og jafnvel þingmönnum og dreift samsæriskenningum.
Þegar Musk bar vitni í máli sem tengist launagreiðslum hans hjá rafbílafyrirtækinu Tesla sagðist hann búast við því að verja minni tíma í rekstur Twitter á næstunni og að hann vonaðist til þess að ljúka endurskipulagningu fyrirtækisins í þessari viku.
Twitter sendi starfsfólki tölvupóst seint í gærkvöldi þar sem því voru gerðir tveir kostir: sætta sig við mikla yfirvinnu við endurskipulagningu fyrirtækisins á næstunni eða taka poka sinn með biðlaunum.
Reuters-fréttastofan segir að fjárfestar í Teslu hafi vaxandi áhyggjur af því hversu miklum tíma Musk hefur varið í Twitter upp á síðkastið.
„Það er aragrúi verkefna í byrjun eftir kaup við að endurskipuleggja fyrirtækið en ég býst við því að draga úr viðveru minni hjá Twitter,“ sagði Musk fyrir dómi.
Viðurkenndi hann að nokkrir verkfræðingar frá Teslu aðstoðuðu nú við að fara yfir verkfræðingateymi Twitter. Það gerðu þeir sjálfviljugir og utan vinnutíma hjá Teslu.
Málið gegn Musk snýst um milljarða dollara greiðslur Teslu til hans. Fjárfestar í fyrirtækinu halda því fram að samningur fyrirtækisins við Musk byggist á að hann nái auðsóttum markmiðum sem stjórn sem sé honum undirgefin samþykkti.