„Þetta mun vonandi ganga betur en í gær. Þetta gekk ekki nógu vel eða eins og þetta gengur venjulega hjá okkur. En það er mjög skiljanlegt að fólk sé hrætt og fólk hafi ekki þorað í bæinn en lögregla var úti um allt og það var mikill viðbúnaður. Og vonandi verður þetta betra í kvöld,“ sagði Birgir Rúnar Halldórsson, einn eigenda skemmtistaðarins Lúx, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir fréttamaður ræddi við hann.
Mörgum skemmtistaðaeigendum þykir of mikið gert úr sögusögnum af mögulegum árásum í miðbænum þessa helgina í tengslum við deilur tveggja hópa í undirheimum sem hafa verið að magnast upp á síðustu vikum. Þær deilur náðu auðvitað hámarki sínu með hnífstunguárásinni á Bankastræti Club á fimmtudaginn fyrir viku.
„Þetta er mjög alvarlegt. Lögregla þarf að taka mikið á þessu. En ég tel að þetta hafi verið mjög blásið upp af fjölmiðlum, því miður. Og það er að bitna bæði á fólki sem ætlaði að skemmta sér um helgina á jólahlaðborðum hjá vinnustöðum og okkur líka, veitingamönnum sem erum að reka staði og klúbba niðri í bæ,“ segir Birgir Rúnar.
Afar fáir voru á ferli í bænum í gær og urðu sumir skemmtistaðir að bregða á það ráð að loka fyrr. Prikið lokaði til dæmis klukkan hálf tvö og Bankastræti Club klukkan eitt.