Guðmundur Birkir Agnarsson, aðgerðastjóri stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar, segir að flotinn sem leitar að sjómanninum sé blanda af fiskiskipum og björgunarbátum frá slysavarnarfélaginu Landsbjörg. Leitarsvæðið er um tuttugu og fimm sjómílur norðvestan við Garðskaga.
„Enn sem komið er er þetta fjöldinn sem mun taka þátt í leitinni. Við vitum ekki hvort það mun bætast við en þetta er það sem við höfum núna yfir að ráða,“ sagði hann í samtali við Vísi þegar klukkuna vantaði um stundarfjórðung í ellefu í morgun.
Til stóð að senda þyrlu Gæslunnar til leitarinnar en verið er að meta aðstæður með tilliti til veður- og skýjafars og skyggnis.
„Það er kominn útsynningur í þetta og við erum að skoða aðstæður. Það stóð ekki til að kalla hana út strax, við ætluðum að fá betri birtu áður en hún yrði kölluð til. Við erum aðeins að vega það og meta. Það er inni í myndinni að senda þyrlu,“ sagði Guðmundur.
Tilkynnt var um að maðurinn hefði farið útbyrðis um klukkan fimm síðdegis í gær. Fimmtán skip og bátar og tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar leituðu að sjómanninum fram á nótt. Leitinni var hætt eftir miðnætti en varðskipið Þór hefur verið á svæðinu í alla nótt.
Uppfært 11:42 Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar leitar nú úr lofti samkvæmt tilkynningu sem Gæslan sendi frá sér rétt í þessu. Sæmilegar aðstæður eru sagðar til leitar þar sem skyggni er takmarkað. Gert er ráð fyrir að leitað verði á meðan aðstæður.