Þetta kemur fram í tilkynningu sem send hefur verið á fjölmiðla.
Þar er vísað til þess að um 80 þúsund norskir eldislaxar hafi sloppið úr opinni sjókví Arnarlax á Vestfjörðum en íslenski laxastofninn telji um 50 þúsund laxa. Um sé að ræða „grafalvarlegt umhverfisslys“ sem muni hafa alvarleg erfðafræðileg áhrif á villta laxastofna á Íslandi.
„Slysasleppingin er enn fremur staðfesting þess að fögur fyrirheit fyrirtækja í sjókvíaeldi eru fölsk og opinberar hún einnig skeytingarleysi fyrirtækisins gagnvart hagsmunum náttúrunnar þegar ákveðið er að mótmæla sektargreiðslunni,“ segir í tilkynningunni.
Erfðamengun villtra stofna sé „óafturkræft umhverfisslys“.
Þá séu um 2.250 lögbýli sem treysta á tekjur frá laxveiðiám og veiðin skapi margfalt fleiri störf en sjókvíaeldið muni nokkurn tímann gera. Efnahagslegt virði lax- og silungsveiða nemi 13,5 milljörðum króna árlega.
Samtökin spyrja að því af hverju stjórnvöld á Íslandi séu að gefa erlendum stórfyrirtækjum auðlindir þjóðarinnar.
„Það er ljóst að ef stjórnvöld hafa raunverulegan áhuga á að vernda villta laxastofna og náttúru Íslands, þá þarf að stöðva fiskeldi í opnum sjókvíum. Á meðan verið er að stunda sjókvíaeldi á Íslandi þarf að gera það eftir allra ströngustu stöðlum. Þar ber helst að nefna NASCO staðlana sem ítrekað hafa verið sendir á stjórnvöld. Undirrituð samtök og fyrirtæki skora á matvælaráðherra að innleiða þessa staðla og gefa engan afslátt af þeim á meðan verið er að stunda þessa mengandi starfsemi í fjörðum landsins.“
Samtökin og fyrirtækin sem um ræðir eru:
NASF á Íslandi, Landssamband Veiðifélaga, Icelandic Wildlife Fund, Laxinn Lifi, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Ungir Umhverfissinnar, Lax-á, Veiðiflugur, Veiðivön, Höklar, Six Rivers Project, Stóra-Laxá, Fuss, Laxá á Ásum, Starir, Miðfjarðará, Eleven Experience, Norðurá, Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR), Hreggnasi, Vatnsdalsá, Veiðifélagið, Fish Partner og Flugubúllan.