Um­fjöllun og við­töl: Kefla­­vík - ÍR 108-88 | Kefl­víkingar keyrðu yfir gestina í lokin

Siggeir Freyr Ævarsson skrifar
Milka og félagar áttu góðan leik í kvöld.
Milka og félagar áttu góðan leik í kvöld. vísir/diego

Keflavík hélt sér á toppi Subway deildar karla í körfubolta með öruggum 20 stiga sigri á ÍR í kvöld, lokatölur 108-88.

Það var boðið uppá hörkuleik í Blue-höllinni í Reykjanesbæ í kvöld, og framan af var ekki að sjá að þar væru að mætast lið á sitthvorum enda töflunnar. ÍR-ingar voru greinilega staðráðnir í að selja sig dýrt og mættu til leiks með sjálfstraustið í botni. Sóknarleikurinn að fljóta vel hjá báðum liðum framan af en þristarnir ekki að detta og hvorugt liðið náði að byggja upp afgerandi forystu. Munurinn aðeins eitt stig eftir fyrsta leikhluta en Keflvíkingar náðu að byggja upp 4 stiga forystu fyrir hálfleikinn

Í upphafi 2. leikhluta upphófst mikill flautukonsert sem hægði töluvert á leiknum en Taylor Johns hélt uppteknum hætti frá síðasta leik, fékk dæmda á sig sóknarvillu og var fljótlega kominn með þrjár villur sem þýddi að lágvaxnari leikmenn ÍR fengu það krefjandi hlutverk að dekka þá Milka og Okeke í teignum á löngum köflum, en þeir skoruðu 20 af fyrstu 48 stigum Keflvíkinga.

Eftir góða og kraftmikla byrjun gestanna þá var eins og allur vindur væri úr þeim í upphafi 4. leikhluta. Keflvíkingar fundu í sarpnum örlítið meiri orku og ákefð, og þá ekki síst Halldór Garðar Hermannsson, sem sallaði niður stigum í leikhlutanum og á 4 mínútum rann leikurinn algjörlega úr greipum ÍR. Keflvíkingar skoruðu alls 34 stig í leikhlutanum og héldu bara áfram að bæta í, tóku fótinn aldrei af bensíngjöfinni. Lokatölur 108-88 sem gefur alls ekki rétta mynd af leiknum en niðurstaðan algjörlega sanngjörn miðað við hvernig leikurinn þróaðist.

Af hverju vann Keflavík?

Keflvíkingar áttu einfaldlega fleiri vopn í sínu vopnabúri en ÍR-ingar í kvöld. Það var erfitt fyrir Taylor Johns að dekka bæði Milka og Okeke á víxl en þeir félagar skiluðu 30 stigum og létu Johns hafa mikið fyrir sínum stigum á hinum enda vallarins.

Hverjir stóðu uppúr?

Dominykas Milka var stigahæstur Keflvíkinga í kvöld með 23 stig, og Eric Ayla kom næstur með 22. Maður leiksins var þó mögulega Halldór Garðar Hermannsson, sem kveikti neistann hjá liðinu í 4. leikhluta. 15 stig frá Dóra í kvöld

Taylor Johns fór fyrir liði ÍR-inga með 23 stig og 13 fráköst, þar af 6 sóknarfráköst. Þá átti Martin Paasoja skínandi góðan skotleik og hefði gjarnan mátt reyna fleiri þrista, en hann var 4/5 fyrir utan og endaði með 21 stig. Hákon Örn Hjálmarsson var einnig mjög sprækur í kvöld og óhræddur við að keyra á körfuna, og skilaði hann 18 stigum í hús.

Hvað gekk illa?

ÍR-ingum gekk illa að hemja miðherja Keflvíkinga, og í fjórða leikhluta gekk eiginlega bara allt illa hjá gestunum. Leikurinn þeirra var eins og svart og hvítt í fyrstu þremur samanborið við fjórða leikhlutann.

Hvað gerist næst?

Jólafrí! Keflvíkingar tylla sér einir á toppinn í bili með þessum sigri, en Valsmenn eiga leik gegn Njarðvík á morgun og geta þá jafnað Keflvíkinga að stigum á ný. Keflvíkingar eiga leik næst þann 29. í Njarðvík og sama kvöld taka ÍR-ingar á móti nýliðum Hattar.

„Maður finnur það alveg að þetta er hægt og rólega að tvinnast saman“

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur.Vísir/Hulda Margrét

Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Keflvíkinga sagði sína menn hafa verið ansi flatir til að byrja með, en gaf þeim að sama skapi plús í kladdann fyrir það hvernig þeir mættu til leiks eftir hlé og náðu að blása lífi og gleði í leikinn

„Við vorum rosa flatir til að byrja með. Lítil orka inni á vellinum og þetta var í rauninni bara þurrt og leiðinlegt. En kredit á strákana að koma inn í seinni hálfleikinn af krafti og hafa svolítið gaman af þessu, hafa svolítið líf í þessu. Við gerðum mjög vel í seinni.“

Var mögulega spennufall í hópnum eftir nágrannaslaginn gegn Njarðvík í bikarnum?

„Já það er bara þannig. Það er alltaf erfitt að gíra sig upp aftur eftir svona leik eins og á móti Njarðvík í bikarnum. Menn ætluðu sér stóra hluti í þeim leik og maður fann það alveg strax eftir leikinn að það yrði ströggl að gíra sig upp eftir hann. En stórt kredit á strákana að klára.“

Keflvíkingar sóttu 30 stig í teiginn í kvöld. Lagði Hjalti upp með það í upphafi?

„Við erum náttúrulega með tvo stóra stráka sem geta skorað inni í teig. Við teljum okkur geta skorað þar á móti hverjum sem er. Kaninn þeim er fjandi hraustur en hann þarf náttúrulega að dekka bæði Milka og David og það er erfitt þegar á reynir.“

Hjalti er að vonum sáttur með hvernig spilast hefur úr tímabilinu, en sagði sína menn hvergi nærri hætta að bæta sig.

„Við erum bara að bæta okkur dag frá degi og ætlum að bæta okkur ennþá meira fram í apríl. Þá ætlum við að reyna að vera að toppa, en það er einhver bikarkeppni að þvælast fyrir okkur. En við erum auðvitað bara að gera okkar besta í hverjum leik og ekkert að halda aftur að okkur eða neitt svoleiðis. Maður finnur það alveg að þetta er hægt og rólega að tvinnast saman, sérstaklega síðustu þrjár fjórar vikurnar. Þær hafa bara verið fjandi góðar og uppá við.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira