Fótbolti

Vara­ne og Kona­té að glíma við veikindi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Varane [til vinstri] og Konaté [fyrir miðju] eru að glíma við veikindi.
Varane [til vinstri] og Konaté [fyrir miðju] eru að glíma við veikindi. Richard Sellers/Getty Images

Þátttaka frönsku miðvarðanna Raphaël Varane og Ibrahima Konaté í úrslitaleik HM í fótbolta sem fram fer á sunnudag er í hættu. Báðir eru að glíma við veikindi en margir af leikmönnum franska liðsins hafa verið veikir að undanförnu.

Vírus hefur herjað á franska liðið að undanförnu og missti miðjumaðurinn Adrien Rabiot til að mynda af af sigrinum á Marokkó í undanúrslitum. Miðvörðurinn Dayot Upamecano og Kingsley Coman voru einnig slappir en fengu þó að sitja á bekknum. Rabiot var hins vegar skipað að halda sig inn á hótelherbergi.

Nú hefur franski fjölmiðillinn L‘Equipe greint frá því að Varane og Konaté séu báðir veikir sem stendur. Konaté ku vera veikari af tvíeykinu en hann lék gegn Marokkó í stað Upamecano.

Franska knattspyrnusambandið gaf út yfirlýsingu fyrr i dag, föstudag, þar sem var greint frá því að Varane, Konaté og Coman myndu ekki æfa með liðinu í dag. 

Það er ljóst að þremenningarnir eru í kapphlaupi við tímann til að ná stórleiknum á sunnudag. Með sigri getur Frakkland orðið fyrsta liðið til að verja heimsmeistaratitil síðan Brasilía gerði það árið 1962.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×