Í tilkynningu á Twittersíðu Vegagerðarinnar varðandi færð á Suðurlandi segir að lokað sé á Hellisheiði, Mosfellsheiði, Suðurstrandarvegi og Krýsuvíkurvegi. Ófært sé á Suðurstrandarveg, Kjósarskarði, í sunnaverðum Hvalfirði og á Nesvegi. Þæfingur, snjóþekja og hálka sé á öðrum leiðum.
Á Vesturlandi er ófært á Brattabrekku, í Álftafirði og um norðanvert Snæfellsnes en þar er unnið að mokstri. Þungfært er út að Hellnum og á Skógarströnd. Þæfingur og jafnvel þungfært er víða í uppsveitum Borgarfjarðar en snjóþekja eða hálka er á öðrum leiðum, að því er segir í tilkynningu.
Annars staðar á landinu hefur ekki verið gripið til lokana en víða er færð þung. Á Vestfjörðum er ófært á Þröskuldum og þæfingur á Dynjandisheiði. Á Norðurlandi er hálka og hálkublettir á flestöllum leiðum og éljagangur víða. Ófært í Almenningum. Á Norðausturlandi er snjóþekja eða hálka á flestum leiðum. Þungfært er á Tjörnesi en ófært er á Dettifossvegi.