Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við fréttastofu að mikið bras hafi verið að ná rútunni aftur upp á veginn. Um borð voru þrjátíu erlendir ferðamenn.
Fleiri ökumenn, sem ekki virtu lokanir, festust á svipuðum slóðum og hafa björgunarsveitarmenn staðið í ströngu við að losa bíla. Jón Þór segir að blessunarlega hafi flestir ökumenn þó virt lokanir í dag. Fáir hafi verið á ferli.
Hringveginum milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs var lokað í morgun og ekki hefur staðið til að opna hann fyrr en á morgun. Gul viðvörun er í gildi á svæðinu vegna hvassviðris og snjókomu. Lokunin nær alla leið frá Seljalandsfossi að Kirkjubæjarklaustri.
Á vef Ríkisútvarpsins er greint frá því að samskipti við bílstjóra rútunnar, í gegnum síma, hafi gengið afar illa. Stefnt sé að því að koma stórvirkum vinnuvélum á staðinn sem fyrst.
Uppfært klukkan 17:29 með upplýsingum um að rútan sitji enn föst.