Sænskir fjölmiðlar greindu í fyrradag frá því að leikmenn yrðu skikkaðir í reglulegar skimanir; áður en mótið hefst, fyrir milliriðil og átta liða úrslitin. Greinist menn jákvæðir þurfa þeir að fara í fimm daga einangrun og mega ekki snúa aftur til móts við liðið sitt fyrr en þeir greinast neikvæðir.
Í gær setti Björgvin inn færslu á Twitter þar sem hann merkti IHF. „Eruð þið að grínast með þessar Covid-19 takmarkanir fyrir HM 2023? Eruð þið að reyna að eyðileggja íþróttina okkar? Handboltavinir… Hvað eigum við að gera? Hvernig komum við í veg fyrir þetta?“ skrifaði Björgvin.
Markvörðurinn hefur nú gengið lengra og sent IHF bréf vegna reglnanna umdeildu. Þar segist hann, ásamt öðrum handboltamönnum, hafa leitað til lögfræðinga vegna möguleika á að leikmenn verði skikkaðir í einangrun vegna kórónuveirunnar. Í því samhengi vísar hann til Mannréttindasáttmála Evrópu sem veiti íþróttafólki sem og öðrum vernd fyrir frelsisskerðingu.
Færslu Björgvins má sjá hér fyrir neðan.
I want to thank everyone for the support regarding my last tweet about the covid 19 restrictions in the next Handball WC! I just now sent IHF this letter here below. All retweets, especially if you are a player taking part in tournament, are well appreciated! Stay tuned pic.twitter.com/4djBw1VR6W
— Björgvin Páll Gústavsson (@BjoggiGustavs) January 4, 2023
Á síðasta stórmóti, EM 2022, lenti Björgvin í einangrun ásamt nokkrum öðrum leikmönnum íslenska liðsins. Töluvert var um breytingar á leikmannahópi þess á meðan því móti stóð sökum smita innan hópsins.
Takmarkanir í löndunum sem halda HM, Svíþjóð og Póllandi, eru litlar sem engar en regluverkið umdeilda, sem Björgvin og aðrir hafa mótmælt, kemur frá IHF.