Garðyrkjubændur hafa ekki farið varhluta yfir frostinu og vetrarhörkunni síðustu vikur og hafa margir þeirra verið á nálum yfir ástandinu. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar þáði boð garðyrkjubænda í síðustu viku að koma á fund þar, sem rætt um ýmsa þætti sem snúa að rekstrarumhverfi garðyrkjubænda í sveitarfélaginu, og snertifleti við sveitarfélagið, þar á meðal um aðgerðir sem hefur þurft að grípa til vegna mikils álags á hitaveitu í þessum harða og langvarandi frostakafla, sem enn stendur yfir en nokkra daga hefur farið vel yfir 20 stiga frost á svæðinu.
Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar sat fundinn og þekkir því til stöðu garðyrkjubænda þessi misserin, eins og í Reykholti í Biskupstungum.
„Og það reynir á hitaveituna í slíku ástandi, þannig að það er verið að reyna að miðla vatni, sem best á milli þessara stöðva og nýta það vatn, sem best er. Svo eru menn að auka lýsingu í gróðurhúsum á móti og ná þannig upp meiri hita, lýsa lengur fram og kvöldið og slíkt,” segir Ásta og bætir við.
„En auðvitað í svona miklu frosti og kulda þá reynir á og auðvitað vaxa plöntur hægar og skila sínum afurðum hægar þegar þær hafa ekki það kjörhitastig, sem að þarf að vera.”

Ásta segir að tjón garðyrkjubænda sé töluvert vegna lítils vaxtar plantna í gróðurhúsunum í kuldanum og svo að þurfa að kosta til aukinnar raflýsingar.
En hvernig er hljóðið svona almennt í garðyrkjubændum fyrir utan þetta?
„Það eru nú bara ágætt. Þeir ná að selja allt, sem þeir eru að framleiða og gætu selt meira og menn hafa hug á meiri stækkunum á gróðurhúsum. Það var mikið stækkað hér af gróðurhúsum fyrir tveimur til þremur árum og menn hafa áhuga á að halda því áfram,” segir Ásta.