Víða eru enn margir snjóskaflar í borginni eftir snjókomuna í desember en Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu Borgarlandsins, segir ástandið fara skánandi. Vinna síðustu daga hefur farið í að hreinsa götur, gangstéttir og kanta og verður áfram næstu daga.
„Við erum að hreinsa götukassa og keyra í burtu snjó, það hefur verið svona aðalverkefnið hjá okkur og við höfum líka verið að leggja áherslu á vesturhlutann, vesturborgina, í því tilliti. Það eru svona verkefnin þessa dagana, það eru 25 til 30 vörubílar að keyra fram og til baka með snjó,“ segir Hjalti.
Kyrrstæðir bílar hafi þó verið til vandræða þegar reynt hefur verið að moka götur og hliðarstæði.
„Það hefur sérstaklega valdið okkur vandkvæðum í Vesturhlutanum en núna erum við að prófa það að senda SMS á íbúa í ákveðnum götum. Við sendum SMS á ákveðnar götur í gær og báðum fólk um að færa bílana sína í dag og það gekk bara rosalega vel,“ segir Hjalti.
Snjórinn er eins og er fluttur á jarðvegshaug á Geirsnefinu en verið er að skoða fleiri staði þar sem núverandi haugur er að fyllast.
„Þetta er bara svo mikið magn, við höfum aldrei keyrt eins mikið af snjó í burtu eins og við erum að gera núna. Þannig við erum svona að leita að öðrum stöðum og það á bara eftir að komast niðurstaða í það,“ segir Hjalti.
Moksturinn tekið lengri tíma en muni gagnast í næsta stormi
Með því að hreinsa vel núna muni það gagnast þegar næsti snjóstormur kemur óhjákvæmilega, enda miður vetur.
„Við getum í raun og veru tekið við þeim snjó þegar við erum búin að hreinsa svona vel, þá erum við ekki í eins miklum vandræðum eins og ef væri fyrir. Þannig þetta hjálpar okkur líka þegar næsti stormur kemur,“ segir Hjalti.
Mokstur í borginni hafi annars tekið nokkuð lengri tíma en þau ætluðu.
„Við erum eins og ég sagði áðan að moka miklu meiri snjó í burtu en við höfum gert og þess vegna tekur þetta aðeins lengri tíma,“ segir Hjalti.
Hvenær gerið þið ráð fyrir að þetta verði komið í nokkuð eðlilegt horf?
„Vonandi bara fljótlega eftir helgi, þá vonumst við til að þessu verði að mestu lokið. Það verða náttúrulega alltaf einhverjar snyrtingar en að mestu lokið strax eftir helgi. Það er alla vega planið.“