Strákarnir okkar enduðu bara í tólfta sæti á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð og Þýskalandi því íslenska liðið var það lið í þriðja sæti milliriðlana sem náði slakasta árangrinum á mótinu.
Þetta þýðir að Ísland á nú enn minni möguleika á sæti í umspili um laus sæti á ÓLympíuleikunum í París 2024.
Íslenska liðið hækkaði sig reyndar um átta sæti frá síðasta heimsmeistaramóti en stefnan hafði verið sett á átta liða úrslitin og að tryggja sér sæti í fyrrnefndi umspili.
Það að liðið hafi dottið alla leið niður í tólfta sæti þýðir að íslenska handboltalandsliðið hefur aðeins einu sinni endað neðar á HM undir stjórn Guðmundur Guðmundssonar.
Þetta var fimmta heimsmeistaramót Guðmundar með íslenska landsliðið og það er bara mótið í Egyptalandi fyrir tveimur árum sem hefur endað verr. Bæði heimsmeistaramót Guðmundar með danska landsliðið enduðu líka betur.
Bestu stórmót íslenska liðsins undir stjórn Guðmundar eru Ólympíuleikarnir 2008 (silfur), Evrópumótið í Austurríki 2010 (brons) og Evrópumótið í Svíþjóð 2002 (fjórða sætið).
Guðmundur hefur alls farið með íslenska liðið á fjórtán stórmót og það er aðeins á HM 2021 (20. sæti) og á EM 2004 (13. sæti) sem hann hefur endað neðar með liðið en á þessu heimsmeistaramóti í ár.
- Versti árangur Íslands á stórmóti undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar:
- 20. sæti á HM í Egyptalandi 2021
- 13. sæti á EM í Slóveníu 2004
- 12. sæti á HM í Svíþjóð og Póllandi 2023
- 11. sæti á HM í Þýskalandi og Danmörku 2019
- 11. sæti á EM í Austurríki, Noregi og Svíþjóð 2020
- 10. sæti á EM í Serbíu 2012
- 9. sæti á ÓL í Aþenu 2004
- 7. sæti á HM í Portúgal 2003
- -
- Sæti landsliða á HM undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar:
- 5. sæti hjá Danmörku á HM í Katar 2015
- 6. sæti hjá Íslandi á HM í Svíþjóð 2011
- 7. sæti hjá Íslandi á HM í Portúgal 2003
- 10. sæti hjá Danmörku á HM í Frakklando 2017
- 11. sæti hjá Íslandi á HM í Þýskalandi og Danmörku 2019
- 12. sæti hjá Íslandi á HM í Svíþjóð og Póllandi 2023
- 20. sæti hjá Íslandi á HM í Egyptalandi 2021