Santos var kosinn inn á þing fyrir Repúblikanaflokkinn í New York-ríki. Skömmu eftir kjör hans fóru fjölmiðlar í Bandaríkjunum að fjalla um lygar hans. Hann sagðist meðal annars hafa útskrifast úr öðrum skóla en hann gerði, hélt því fram að hann hafði rekið dýraskýli, sagði móður sína hafa látist í árásunum á Tvíburaturnana og margt fleira sem reyndist síðan vera uppspuni.
Hann viðurkenndi að hafa logið um einhverja hluti á ferilskránni en tók samt sæti á þingi. Alríkis- og sýslusaksóknara í Bandaríkjunum hafa verið að rannsaka meinta glæpi hans, saksóknarar í Brasilíu rannsaka hann vegna fjársvikamáls en ekkert er enn komið úr þeim rannsóknum.
Greint var frá því í janúar að Santos hafi fengið sæti í tveimur nefndum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í vísinda-, geim-, og tækninefnd og nefnd um smá og meðalstór fyrirtæki. Hann hafði sóst eftir sæti í mikilvægari nefndum en hafði ekki erindi sem erfiði.
Í gær tilkynnti Santos síðan flokkssystkinum sínum að hann ætlaði ekki að taka sæti í nefndunum fyrr en búið væri að hreinsa hann af ásökununum. Þá baðst hann afsökunar á því að vera truflun fyrir aðra repúblikana og kenndi fjölmiðlafári um það.
Nokkrir þingmenn repúblikana hafa sagst styðja ákvörðun Santos og vilja að mál hans verði rannsakað áður en hann tekur sæti í nefndum. Leiðtogar innan flokksins höfðu áður kallað eftir því að hann segði af sér en líklegt þykir að ekkert verði af því.