Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að stjórn dómstólasýslunnar hafi samþykkt að veita Ástráði leyfi frá störfum sínum við Héraðsdóm Reykjavíkur. Leyfið er þegar hafið.
Sérstaklega er tekið fram í tilkynningunni að Aðalsteinn gegni enn embætti ríkissáttasemjara og að störf Ástráðs snúi eingöngu að deilu Eflingar og SA.
Í samtali við Vísi sagðist Ástráður rétt að átta sig á hlutunum enda væri hann nýkominn með skipunarbréfið í hendurnar. Hann bjóst þó við að ákveðið yrði mjög fljótlega hvenær fulltrúar deiluaðila yrðu kallaðir til fundar.
Vék í gær
Efling hefur ítrekað gert kröfu um að Aðalsteinn viki sæti í deilunni, eftir að hann setti fram miðlunartillögu í deilu félagsins við SA.
Aðalsteinn varð við því í gær eftir að Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms um hvort Eflingu væri skylt að afhenda kjörskrá sína, svo félagsmenn gætu greitt atkvæði um tillöguna. Ríkissáttasemjari hafði gert samkomulag við Eflingu um að úrskurðinum yrði ekki skotið til Hæstaréttar.
