Stéttarfélagið Efling hélt baráttufund í Hörpu í dag vegna verkfalla olíubílstjóra sem hófust á hádegi. Fréttastofa var á svæðinu og ræddi við gesti fundarins.
Daníel Snær, bílstjóri hjá Samskipum, var einn gesta en hann hóf verkfall í hádeginu. Hann segir það agalegt að þurfa að grípa til þessara ráða og að það sé ekki hægt að semja.
„Það er verið að berjast fyrir launum fólks en ekki neinu hættulegu. það er ekki verið að tala um að hækka launin um þrjátíu milljónir heldur bara smá hækkun svo menn geti lifað út mánuðinn og þurfa ekki að hafa kvíða fyrir því að ná endum saman,“ segir Daníel.
Síðustu mánaðamót fékk hann 450 þúsund krónur útborgaðar, sem dugar honum, en honum er samt hugað til þeirra sem eru með börn. Sjálfur er Daníel barnlaus og einhleypur.
„Maður finnur fyrir stuðning. Svo eru einhverjir ósammála en það er eins og það er. Mér finnst það samt skrítið, það er verið að berjast fyrir launum fólks ekki neinu ólöglegu. Ég er mjög ánægður með ummælin sem Bubbi Morthens kom í vikunni, hann sagði að Sólveig væri með þeim betri til þess að berjast í þessum málum. Stórt hrós á hana og áfram Efling,“ segir Daníel.



