Fótbolti

Hlær að reglubreytingu: „Varði vítin sem ég þurfti“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Martínez var valinn besti markvörður heimsmeistaramótsins og fagnaði því á athyglisverðan hátt.
Martínez var valinn besti markvörður heimsmeistaramótsins og fagnaði því á athyglisverðan hátt. Alex Livesey - Danehouse/Getty Images

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, er sagt undirbúa breytingar á reglum er varða markverði og athæfi þeirra á meðan vítaspyrnukeppnum stendur. Argentínumaðurinn Emiliano Martínez, og hans hegðun í vítakeppninni á úrslitaleik HM í fyrra, er sögð vera kveikjan að breytingum.

Nýju regluverki er sagt eiga að koma í veg fyrir að markverðir trufli spyrnumenn í aðdraganda þeirra spyrnu. Martínez beitti öllum brögðunum í bókinni samkvæmt kollega sínum Hugo Lloris í tapliði Frakka.

Hann hafði gert slíkt áður í mikilvægum leikjum Argentínu þegar þeir unnu Suður-Ameríkukeppnina árið 2021. Í úrslitaleik HM í Katar í desember varði hann frá Kingsley Coman og kastaði boltanum í burtu áður en Aurelien Tchouameni klúðraði sinni spyrnu.

Martínez skutlar sér er Tchouameni skýtur framhjá markinu.Julian Finney/Getty Images

Aðspurður um mögulegar breytingar kveðst Martínez ekki hafa áhyggjur.

„Ég sagði eftir Suður-Ameríkukeppnina að ég væri óviss um hvort ég gerði slíkt aftur. Ég varði vítin sem ég þurfti að verja. Og nú gerðist það aftur á HM, ég veit ekki hvort ég mun verja víti næstu 20 árin, en ég þurfti að takast á við þau í Suður-Ameríkukeppninni og á HM,“ segir Martínez.

„Ég varði þau og hjálpaði liðinu að vinna, það dugar mér. Við munum alltaf aðlagast nýju regluverki og því sem FIFA vill,“ segir Martínez um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×