Viggó hefur glímt við meiðsli í nára og þeir Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson, þjálfarar íslenska liðsins, vildu hafa vaðið fyrir neðan sig og hóuðu því í Arnór sem gæti leikið sinn fyrsta landsleik gegn Tékklandi annað kvöld.
Viggó spilaði þó í fræknum sigri Leipzig á Kiel í þýsku úrvalsdeildinni um helgina og Gunnar er bjartsýnn að geta teflt honum fram gegn Tékklandi í undankeppni EM 2024 á morgun.
„Viggó er tæpur í nára og það var óvíst hvort hann kæmist í gegnum leikinn gegn Kiel. En við erum vongóðir um að hann verði með og hann var betri eftir leikinn á sunnudaginn en hann þorði að vona,“ sagði Gunnar í samtali við Vísi.
„Það lítur betur út. En þetta var það stuttur undirbúningur að við tókum ekki áhættu á að vera bara með eina örvhentu skyttu og tókum því Arnór með okkur út sem sautjánda mann,“ sagði Gunnar en auk Viggós og Arnórs er Teitur Örn Einarsson í íslenska hópnum.
Að sögn Gunnars eru allir aðrir leikmenn Íslands heilir heilsu og klárir í slaginn.