Leikurinn í dag fór fram á Selfossi en fyrir leikinn var Fram í fjórða sæti Olís-deildarinnar en Selfoss í því sjöunda og næst neðsta.
Leikurinn var jafn til að byrja með en um miðjan fyrri hálfleik náði Fram góðum kafla og komst mest sex mörkum yfir. Staðan í hálfleik var 17-13 fyrir gestina úr Fram.
Selfoss náði að minnka muninn í tvö mörk í upphafi síðari hálfleiks en missti gestina síðan frá sér á nýjan leik. Lokamínúturnar voru ekki sérlega spennandi og Fram fagnaði að lokum fjögurra marka sigri, lokatölur 28-24 fyrir Fram.
Perla Ruth Albertsdóttir, fyrrum og verðandi leikmaður Selfoss var öflug hjá Fram í dag. Hún skoraði átta mörk úr tíu skotum og var markahæst hjá gestunum. Sara Kristín Gunnarsdóttir kom næst með sex mörk og þá varði Hafdís Renötudóttir 14 skot í markinu eða tæplega 38% þeirra skota sem hún fékk á sig.
Hjá Selfossi var Katla María Magnúsdóttir markahæst með 7 mörk og Cornelia Hermansson varði 14 skot í markinu sem gerir um 34% vörslu.
Fram er enn í 4. sæti Olís-deildarnnar en nú fjórum stigum á eftir Stjörnunni sem tapaði fyrir Val í dag. Selfoss situr enn í 7. sæti og á litla möguleika á að ná Haukum í sjötta sætinu og ná þar með í úrslitakeppnina.