Rúmlega 700 kindur voru aflífaðar á bænum á þriðjudag en ljóst var um helgina að urða þyrfti hræin þar sem brennsluofn sorpeyðingarfyrirtækisins Kölku var ekki tiltækur. Upprunalega stóð til að urða hræin á jörð Lækjamóts, sem er í öðru sóttvarnarhólfi, en bændur þar hættu við eftir aðkast frá sveitungum.
Sjötíu tonn urðuð
Í gærkvöldi lá annar staður fyrir en sá er í Miðfjarðarhólfi, þar sem riðan kom upp, á stað þar sem sauðfjárrækt er ekki til staðar. Matvælastofnun vill ekki gefa nákvæma staðsetningu upp að svo stöddu en búið var að urða hræin, alls um 70 tonn, síðdegis í dag.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitastjóri í Húnaþingi vestra, segir það létti að málið hafi verið leyst.
„Það lögðust allir á eitt þessa síðustu klukkutíma við að leysa þetta mál og ég verð öllu því fólki sem kom að því ævinlega þakklát. Það verður að segjast að það er enginn ánægður með að féð hafi verið urðað en þetta var bara það eina í stöðunni því miður,“ segir Unnur.
„Þetta á ekki að koma fyrir aftur“
Enn á eftir að aflífa og taka sýni úr um 20 öðrum gripum sem komu frá bænum en það verður gert á næstunni. Verkefnið er því ekki búið, margir bændur eru í óvissu og uggandi um framhaldið.
„Við söfnum kröftum núna í einhverja daga og höldum áfram að hlúa að okkar fólki sem að varð fyrir þessu áfalli. Svo förum við bara í það að leggjast á árar með öðrum til að knýja á um nauðsynlegar breytingar á reglugerðinni þannig það þurfi ekkert samfélag að standa í því sem við höfum verið að standa í undanfarna daga og vikur,“ segir Unnur.
Einnig þurfi að leggja aukinn þunga í verndandi argerð, svo hægt sé að rækta upp stofn án riðu, og skoða hvernig úrgangsmálum er háttað, í ljósi reynslunnar.
„Þetta á ekki að þurfa að koma fyrir aftur. Við munum leggja okkur öll fram við að það verði ekki á landinu öllu og ég veit að það eru margir til í að taka það samtal með okkur,“ segir Unnur.