Ramaphosa sagðist hafa rætt við forsetana í síma um helgina og þeir hafi báðir samþykkt að taka á móti sendinefnd í Moskvu annars vegar og Kænugarði hins vegar.
Auk Ramaphosa verða leiðtogar Sambíu, Senegal, Lýðveldisins Kongó, Úganda og Egyptalands skipa sendinefndina, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Ramaphosa fór yfir vendingarnar á blaðamannafundi með Lee Hsien Loong, forsætisráðherra Singapúr, í dag þar sem hann sagði meðal annars að innrásin í Úkraínu hefði komið niður á ríkjum Afríku. Hækkun á verði korns er meðal þess sem hefur komið niður á Afríku.
Hann sagði ómögulegt að segja að svo stöddu hvaða árangri þessi fundarhöld gætu skilað en mikilvægt sé að láta á þau reyna.
Media Conference #SingaporeInSA https://t.co/ZdzEaY8JVy
— Cyril Ramaphosa (@CyrilRamaphosa) May 16, 2023
Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu, eins og um það hvenær fundirnir eiga að fara fram en undirbúningur fyrir þá á að hefjast á næstunni, samkvæmt Ramaphosa. Hann sagðist vonast til þess að fundirnir gætu byrjað sem fyrsti.
Skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu hófust viðræður milli Úkraínumanna og Rússa. Þeim var þó hætt eftir að ódæði rússneskra hermanna í Bucha og víðar litu dagsins ljós.
Sjá einnig: „Ég er búinn að drepa svo mikið af borgurum“
Selenskí hefur síðan þá sagt að Úkraínumenn ætli sér að reka Rússa á brott. Annað fæli eingöngu í sér frekari átök seinna meir og ekki kæmi til greina að yfirgefa úkraínskt fólk í höndum Rússa. Þá hefur Pútín ekki gefið til kynna að hann sé tilbúinn til viðræðna um annað en uppgjöf Úkraínumanna.
Sakaðir um að senda Rússum vopn
Ramaphosa sagði í gær að yfirvöld í Suður-Afríku, sem hafa ekki fordæmt innrás Rússa, hefðu orðið fyrir miklum þrýstingi um að taka afstöðu vegna stríðsins í Úkraínu. Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa sakað yfirvöld í Suður-Afríku um að senda vopn til Rússa eftir að innrásin í Úkraínu hófst, en varnarmálaráðherra Suður-Afríku hefur þvertekið fyrir það.
Þá var yfirmaður hers Suður-Afríku í Moskvu í gær, þar sem hann ræddi við ráðamenn um aukna hernaðarsamvinnu milli ríkjanna.
Ramaphosa sagði einnig í gær að Suður-Afríka yrði ekki dreginn inn í deilur stórvelda en Lee virtist gagnrýna þá afstöðu á áðurnefndum blaðamannafundi í dag, samkvæmt frétt France24.
Lee sagði það spurningu um grunngildi að eitt ríki gæti ekki ráðist inn í annað án afleiðinga. Það þyrfti að foræmda slíkar innrásir.