Ekasit Thasaphong var fæddur árið 1980. Hann bjó í Grindavík ásamt konu og þremur börnum. Hann féll útbyrðis af Sighvati GK-57 norðvestan af Garðskaga 3. desember. Þyrlur Landhelgisgæslunnar, varðskip, allur tiltækur floti björgunarsveita og neðansjávarfar tók þátt í leit að Ekasit en hún bar engan árangur.
Í stefnu sambýliskonu hans er atvikum lýst þannig að aðrir skipverjar hafi ekki orðið þess varir að Bhong, eins og hann er nefndur þar, félli útbyrðis. Þegar uppgötvaðist að hann væri ekki lengur um borð um hálftíma síðar hafi umfangsmikil leit á svæðinu sem skipið hafði farið um hafist.
Skipverjar sem gáfu skýrslu telja þá eina skýringu mögulega að Bhong hafi flækst í færi þegar verið var að leggja línu og fallið með því útbyrðis. Þó að slysið hafi ekki náðst á upptöku á myndavélar á neðri dekki skipsins var hægt að tímasetja það út frá því hvenær band sem sett er á milli rekka og færis er bundið í línu og fer út í gegnum línuvél.
Við leitina fannst meðal annars heyrnarhlíf merkt Bhong og stígvél af sömu gerð og stærð og hann notaði samkvæmt upplýsingum útgerðarinnar. Talið er að hann hafi náð að skera færið í sundur en hluti þess lá út frá skipinu en bauja og belgir sem voru tengdir færinu urðu eftir um borð. Sjórinn þar sem talið er að Bhong hafi fallið er á bilinu 90 til 95 metra djúpur.
Vísað er til þess í stefnunni að ekki sé hægt að gefa út dánarvottorð eða ganga frá skiptum á dánarbúi Bhong nema ákveðið verði fyrir dómi að telja hann látinn.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í september.