Körfubolti

Jakob fær það verk­efni að reisa við fallið stór­veldi: „Er hrika­­­lega spenntur“

Aron Guðmundsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarsson, þjálfari karlaliðs KR í körfubolta og framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar félagsins
Jakob Örn Sigurðarsson, þjálfari karlaliðs KR í körfubolta og framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar félagsins Vísir/ Steingrímur Dúi

Jakob Örn Sigurðar­son var á dögunum ráðinn þjálfari karla­liðs KR í körfu­bolta sem gengur nú í gegnum krefjandi tíma. Jakob er upp­alinn KR-ingur og var sem leik­maður afar sigur­sæll. Hann fær nú það hlut­verk að koma KR aftur á topp ís­lensks körfu­bolta.

Hið ó­trú­lega gerðist þegar að KR, risinn í ís­lenskum körfu­bolta, féll úr efstu deild karla á síðasta tíma­bili eftir hörmungar­gengi.

Nú heldur liðið í endur­skipu­lagningu og upp­byggingu, veg­ferð sem teygir anga sína alveg niður í yngri flokka fé­lagsins.

„Ég er hrika­lega spenntur fyrir því að fá tæki­færi til þess að byggja KR upp aftur,“ segir Jakob í við­tali við Stöð 2. „Það var á­kveðið sjokk fyrir okkur að falla niður í fyrstu deildina en í því getur einnig falist tæki­færi fyrir okkur til þess að fara í smá endur­skipu­lagningu og upp­byggingu á yngri flokka starfinu, á­samt því að endur­skipu­leggja um leið meistara­flokkinn.“

Al­gjör­lega ný staða

KR setti met, eftir að úr­slita­keppni var sett á lag­girnar í efstu deild, með því að standa uppi sem Ís­lands­meistari sex ár í röð. Síðasti Ís­lands­meistara­titill fé­lagsins kom árið 2019 en um leið er KR það lið sem hefur oftast orðið Ís­lands­meistari karla í körfu­bolta, alls á­tján sinnum.

Jakob kemur ekki blautur á bak við eyrun inn í starfið hjá KR. Hann var að­stoðar­þjálfari Helga Más Magnús­sonar á síðasta tíma­bili hjá liðinu og var áður leik­maður þess.

KR er hans upp­eldis­fé­lag og því tók það auð­vitað á þegar fall KR, þessa mikla risa í ís­lenskum körfu­bolta, varð stað­reynd.

„Það var náttúru­lega mjög erfitt,“ svarar Jakob að­spurður um til­finninguna sem fylgdi því að falla með KR. „Þetta var mjög erfitt tíma­bil fyrir okkur og ekki mikið sem gekk upp hjá okkur. Þá var þetta al­gjör­lega ný staða sem fé­lagið og fólkið í kringum það upp­lifði sig í. Á sama tíma var þetta á­kveðin reynsla fyrir okkur að ganga í gegnum, reynsla sem mér finnst við vera að beina í réttan far­veg núna.“

Jakob Örn á sínum tíma sem leikmaður KRMynd/Daníel

Kort­leggja það hvað fór úr­skeiðis.

Verið sé að nýta þessa vondu reynslu á réttan hátt með því að greina hvað fór úr­skeiðis, af hverju svona hafi farið og um leið reynt að fyrir­byggja það að þetta gerist aftur. Jakob segir ýmis­legt hafi farið úr­skeiðis hjá KR á síðasta tíma­bili.

„Það sem okkur finnst hafa verið helsta vanda­málið var skortur á ís­lenskum kjarna í liðinu, eitt­hvað sem hefur verið og var alltaf til staðar hjá KR sér­stak­lega þegar að liðið vann reglu­lega titla fyrir ekkert svo mörgum árum.

Það varð til á­kveðið bil þegar leik­menn lögðu skóna á hilluna og aðrir fóru í önnur lið eins og gengur og gerist. Á þeim tíma­punkti var ekki til staðar hjá okkur kjarni leik­manna til þess að taka við keflinu.“

Það gekk lítið upp hjá KR á síðasta tímabiliVísir/Bára Dröfn

Tíma­bilið í fyrra hafi því ein­kennst af KR-liði með mjög unga ís­lenska leik­menn í bland við er­lenda leik­menn.

„Það er alltaf á­kveðið lottó þegar maður er að taka inn er­lenda leik­menn og það gekk bara alls ekki upp hjá okkur á síðasta tíma­bili. Rétta blandan af liðinu var ekki til staðar og okkur finnst það vera alveg ljóst að til staðar þarf að vera góður kjarni af ís­lenskum leik­mönnum.

KR-ingar sem eru upp­aldir í fé­laginu, vita hvað það stendur fyrir. Leik­menn sem leggja hjarta og sál í leikinn. Þegar að það er til staðar þá smitar það út frá sér til annarra leik­manna sem koma inn í fé­lagið.“

KR-ingar kallaðir heim

KR hefur mark­visst undan­farið samið við KR leik­menn sem eru annað hvort upp­aldir hjá fé­laginu eða hafa spilað með því áður, vita hvað það stendur fyrir. Helst ber þar kannski að nefna Odd Rúnar Kristjáns­son, Alexander Óðinn Knudsen og Hjört Kristjáns­son.

„Ég held að blandan af þeim strákum sem við erum að fá til liðs við okkur sé mjög góð, bæði hvað varðar þá sem leik­menn en einnig sem per­sónur. Þetta er hópur sem passar mjög vel saman og því tel ég þetta rosa­lega já­kvæð fyrstu skref hjá okkur til þess að koma okkur aftur upp í efstu deild. Þegar að það tekst og við förum aftur upp þá verðum við betur til­búnir í þá bar­áttu.“

Þrjú ár á toppinn?

Samningur Jakobs við KR gildir til næstu þriggja ára. Hvar viltu sjá KR-liðið standa að þessum samningi loknum?

„Að þremur árum liðnum vil ég að KR verði komið á þann stað sem liðið var á áður. Í þessum toppi í efstu deild að berjast um að komast í úr­slit, berjast um titil. Þar vil ég að meistara­flokkur sé.

Svo vil ég að yngri flokkarnir séu á þeim tíma­punkti á góðum stað. Að það hafi orðið fjölgun iðk­enda í flokkum, að við sjáum fram­tíðina í leik­mönnum yngri flokka starfsins. Bæði að við sjáum krakka sem fé­lags­menn til fram­tíðar og krakka sem munu eiga tæki­færi á að verða meistara­flokks leik­menn og hjálpa okkur í fram­tíðinni.“

KR vann síðast Íslandsmeistaratitil 2019.

Stígur einnig inn í nýja stöðu

Auk þess að taka við starfi þjálfara meistara­flokks karla í körfu­bolta hjá KR var Jakob Örn ráðinn fram­kvæmda­stjóri körfu­knatt­leiks­deildar fé­lagsins en um er að ræða nýja stöðu.

„Ég tel það vera mjög þarft hjá fé­laginu að ráða inn í þessa stöðu. Ég held að það hafi svo­lítið sýnt sig á síðasta tíma­bili, sér í lagi í tengslum við yngri flokka starfið þar sem mér finnst hafa vantað ein­hvern inn sem var með yfir­sýn yfir allt.

Það er mjög já­kvætt að fé­lagið hafi tekið þetta skref, að ráða inn starfs­mann í þetta og það verður nóg að gera í þessu. Þetta verður á­kveðin reynsla fyrir fé­lagið, að byrja á þessu.“

Heiður að fá starfið

Jakob Örn hefur farið í gegnum allan skalann hjá KR. Hann er upp­alinn í fé­laginu, varð seinna leik­maður meistara­flokks þar og hefur unnið titla með fé­laginu. Nú er hann sestur í þjálfara­stólinn hjá karla­liði KR og segir það mikinn heiður fyrir sig.

„Fyrir mig er það al­gjör heiður að fá að taka þátt í þessu. Hér er ég upp­alinn og nú bý ég í Vestur­bænum, strákarnir mínir eru ungir guttar núna í minni­bolta að æfa. Þetta er bara frá­bært og ég er ó­trú­lega á­nægður og glaður yfir því að fá þetta tæki­færi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×