„Það er vont en það venst,“ segir Silli hlæjandi spurður hvort ekki sé erfitt að vera alltaf bestur ár eftir ár. Rætt var við Silla í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Nei nei, þetta er bara gaman. Maður uppsker eins og maðir sáir og gerir. Það er gaman að sjá þessa miklu vinnu og maður uppsker eftir því.“
Hvað var á vinningsborgaranum í ár?
„Heyrðu, það var gæsahamborgari með reyktri gráðostasósu, sultuðum rauðlauk með trönuberjum, rucola og brauð sem ég fæ sérbökuð frá Deig í Tryggvagötu.“
Silli keppir á heimsmeistaramótinu í götubita á Þýskalandi í september. Hann lenti í öðru sæti í fyrra og það stendur ekki á svörum þegar hann er spurður hvert hann stefni í ár.
„Það var einmitt planið að vinna í ár til þess að komast aftur út til þess að sigra keppnina og það verður í lok september. Þannig að það verður farið með gæsahamborgarann og eitthvað eitt annað sem á eftir að smíða.“
Við höfum heyrt grínast með það að þú fáir ekki að taka þátt hér á næsta ári eftir að hafa unnið fjögur ár í röð, en muntu mæta hérna að ári?
„Ég var búinn að ákveða sjálfur fyrir þessa keppni að ef það tækist að vinna í ár þá myndi ég vera sem dómari á næsta ári. Þannig að þetta er komið gott, maður verður að hleypa öðrum að líka.“