Innlent

Fólk verði að setja upp „inn­brots­gler­augun“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fólk ætti að skoða sig vel um í kringum heimilið áður en haldið er í ferðalag.
Fólk ætti að skoða sig vel um í kringum heimilið áður en haldið er í ferðalag. Vísir/Getty

Öryggis- og lög­gæslu­fræðingur segir að mikil­vægt að fólk gangi hringinn í kringum heimili sín og setji upp „inn­brots­gler­augun“ vegna þeirrar inn­brota­hrinu sem nú gengur yfir höfuð­borgar­svæðið.

Ey­þór Víðis­son, öryggis-og lög­gæslu­fræðingur, ræddi fréttir af inn­brota­hrinunni í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun. Hann segir mikil­vægt að fólk taki sér ör­fáar mínútur í að skoða að­komuna að heimili sínu og hugsa með sér: „Hvernig kemst ég inn í þetta hús? Hvað gerist þegar ég er kominn inn í þetta hús?“

Læsa milli­hurðum

Stutt er í stærstu ferða­helgi ársins, verslunar­manna­helgina. Ey­þór hvetur fólk til þess að taka sér tíma, sem ekki þurfi að vera langur, í að gæta að ýmsum at­riðum áður en haldið er í ferða­lagið.

„Segjum að við­komandi ætli inn til þín. Hann er kominn inn í húsið. Hvert fer hann? Hvað er hann lík­legur til að taka? Ertu að fara að sakna þessa hlutar? Er það tölvan með fermingar­myndunum? Hvað geri ég þá við þessa tölvu?“

Ekki sé um langt ferli að ræða og alls ekki heill dagur að sögn Ey­þórs. Heldur nokkrar mínútur, til að mynda daginn áður en haldið er af stað.

„Þú setur upp inn­brots­gler­augun. Hvernig ætla ég að skilja við hlutina? Til að mynda getur það skipt sköpum, bara það að læsa milli­hurðum og læsa hurðum. Ef þú ert með lykil inn í hurð í svefn­her­bergi, ef þú læsir henni áður en þú ferð, þá ertu búinn að tefja hann í tuttugu mínútur, hálf­tíma. Setur svo kannski lykilinn ofan í eld­hús­skúffu.“

Öryggið sé púslu­spil

Ey­þór segir skiljan­legt að al­gengara sé á sumrin að hurðir gleymist opnar. Bíl­skurs­hurðir og annað þar sem börn mögu­lega ganga um til að sækja leik­föng og annað og gleymi að loka. For­eldrar þurfi að vera dug­legir að ræða málin á heimilinu.

„Fólk þarf að vera meira vakandi á tímum sem þessum. Það er alltaf ein­hver til­búinn til þess að taka hlutina, það er bara svo­leiðis,“ segir Ey­þór.

Spurður um það hvaða tól séu besti fælingar­mátturinn segir Ey­þór að öryggi heimilisins sé líkt og púslu­spil. Þá þurfi nokkur púsl svo að allt gangi sem best.

„Þetta er bara púslu­spil. Eftir því sem þú ert með fleiri púsl því öruggara er heimilið. Mynda­véla­kerfi er eitt púsl, öryggis­kerfi er eitt púsl, ná­granna­varsla er eitt púsl. Eftir því sem þú full­komnar myndina því betur ertu staddur og ert lík­legri til þess að koma í veg fyrir hluti.“

Hann segir verð­mæti fólgin í miðum frá öryggis­fyrir­tækjum líkt og Secu­ritas og Öryggis­mið­stöðinni. „Það hefur alltaf verið á­gætis fælingar­máttur í þessum kerfum. Þessir miðar eru vel geymdir hjá Secu­ritas og Öryggis­mið­stöðinni af því að það er fælingar­máttur í þeim. Það eru verð­mæti í þessum miðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×