Greint er frá komu flughersins á vef utanríkisráðuneytisins. Þar segir að undirbúningur fyrir heimsóknina hafi staðið yfir um nokkurra vikna skeið. Þetta er í þriðja skipti sem flugsveit af þessu tagi kemur til Íslands.
Fram kom í fréttum Stöðvar 2 fyrir tveimur árum að þegar Bandaríkjaher vill virkilega sýna mátt sinn, þá sendir hann torséðu B-2 sprengjuþotuna á vettvang.
B-2 er talin eitthvert skæðasta vopn sem til er en óvenjulegt útlit þotunnar gerir það að verkum að hún sést illa á ratsjám. Þá getur hún borið allt að sextán kjarnorkusprengjur.
Þessi fljúgandi vængur er jafnframt dýrasta flugvél sögunnar. Þróun og smíði hennar kostaði 260 milljarða króna á hvert eintak en aðeins tuttugu eru til í heiminum. Svo dýr er hún í rekstri að hver flugtími reiknast á 17 milljónir króna.
Viðvera bandarísku flugsveitarinnar fer fram á grundvelli varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og er mikilvægt framlag til fælingaraðgerða í Norður-Evrópu. Landhelgisgæsla Íslands annast í umboði utanríkisráðuneytisins framkvæmd verkefnisins í samvinnu við Isavia.
Í fréttatilkynningu bandaríska flughersins árið 2019 var Keflavíkurherstöðinni lýst sem útstöð fyrir B-2 sprengjuþotuna. Þessi skilgreining var ítrekuð tveimur árum síðar og raunar kveðið skýrar að orði. Með því að gera Keflavík að nýrri framvarðarstöð til að hefja sprengjuárásir sé stutt við stefnu varnarmálaráðuneytisins um að viðhalda valdajafnvægi á svæðinu.