Innlent

Fram­vísaði fölsuðum skil­ríkjum og fer í fangelsi

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag.
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag. Vísir/Vilhelm

Erlendur ríkisborgari hefur verið dæmdur til þriggja mánaða fangelsisvistar, þar af tveggja óskilorðsbundinna, fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum og koma því þannig til leiðar að hann hlaut fullnaðarskráningu hjá Þjóðskrá Íslands á fölskum forsendum.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp í fyrradag, segir að maðurinn hafi verið ákærður fyrir brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga, útlendingalögum og skjalafals, með því að hafa framvísað í blekkingarskyni við starfsfólk Þjóðskrár Íslands grunnfölsuðu ítölsku kennivottorði. 

Þannig hafi honum verið kleift að starfa hér á landi á fölsku auðkenni hjá ótilgreindu fyrirtæki á árunum 2019 og 2020, án þess að sækja um atvinnuleyfi, og dvalið í heimildarleysi á Íslandi og Schengen-svæðinu, án áritana og dvalarleyfis, á framangreindu tímabili.

Skrópaði 

Maðurinn var ekki viðstaddur þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll. Því gekk útivistardómur í málinu og háttsemi hans talin sönnuð með vísan til rannsóknargagna.

Við ákvörðun refsingar var til þess litið að með brotum sínum var manninum kleift að starfa hér á landi um sextán mánaða skeið án þess að sækja um atvinnuleyfi. Þá var einnig tekið mið af því að ríkir einstaklings-og almannahagsmunir eru bundnir við það að einstaklingar noti rétt persónuauðkenni.

Með hliðsjón af því var maðurinn dæmdur til þriggja mánaða fangelsisvistar. Fullnustu þrjátíu daga refsingarinnar var frestað og fellur niður að tveimur árum liðnum, haldi maðurinn almennt skilorð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×