Katrín segist þó ekki vera á því að þetta verði endilega niðurstaðan. „Ég held að það séu nú ýmsir sem séu að reyna að gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að við lendum í þeim augljósa orðsporshnekki sem yfirvofandi er ef við höldum þessum veiðum áfram.“
Svandís tilkynnti í hádeginu að hún ætli að setja nýja reglugerð í dag sem ætlað sé að bæta umgjörð veiða á langreyðum. Með reglugerðinni verði brugðist við niðurstöðum eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um veiðar á langreyðum árið 2022, áliti fagráðs um velferð dýra og skýrslu starfshóps um mat á leiðum til að fækka frávikum við veiðarnar.
Hefði átt að standa betur með fyrri ákvörðun
Katrín segir að sér þyki leitt að Svandís hafi ekki staðið betur með fyrri ákvörðun sinni, en fyrr í sumar frestaði veiðum til loka ágústmánaðar.
„Ég hef skoðað þessa skýrslu starfshóps lítillega og í raun finnst mér að þar sé bara verið að fjalla um það sem Hvalur segist ætla að gera og segist geta gert án þess að sannleiksgildið sé rannsakað sérstaklega.
Við erum bara að horfa fram á það að Kristján Loftsson sé að fara að senda langreyðum raflost ofan á allt annað. Ég held að við séum að missa svakalega sjónar af stóru myndinni, bæði hvað varðar náttúruna – að við séum hluti af vistkerfi jarðar – og líka hvað varðar orðsporsáættuna sem við erum að taka sem samfélag.“
Sjálfmiðaður fókus
Katrín segist sömuleiðis hrygg og það vera sorglegt að heyra fólk segja að hér sé hvort eð er nóg af ferðamönnum eða að einhverjir útlendingar eigi ekki að segja okkur fyrir verkum. „Þetta snýst um að skilja að við séum hluti af heildarsamhenginu og að þær ákvarðanir sem eru teknar hér hafa áhrif á vistkerfi alls staðar og þar með mannfólk alls staðar. Við þurfum kannski svolítið að taka þennan sjálfmiðaða fókus niður um nokkrar tommur,“ segir Katrín.