Innlent

Há­marks­aldur heil­brigðis­starfs­fólks hækkar í 75 ár

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Sjötíu ára reglan tók gildi árið 1947. 
Sjötíu ára reglan tók gildi árið 1947.  Vísir/Vilhelm

Á síðasta löggjafarþingi var frumvarp heilbrigðisráðherra um hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks upp í 75 ár samþykkt. Frumvarpið tekur gildi þann 1. janúar 2024.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um áætlanir um mönnun í heilbrigðiskerfinu. Þar segir að í frumvarpinu sé að finna nýtt ákvæði sem veitir heilbrigðisstarfsfólki heimild til undanþágu frá 70 ára reglunni. Um er að ræða tímabundna undanþágu sem mun gilda til 31. desember 2028. 

Þá kemur fram að skilyrði sé að starfið felist í beinum samskiptum við sjúklinga, stoðþjónustu, rannsóknum í tengslum við þjónustu við sjúklinga eða handleiðslu yngra starfsfólks, enda sé skortur á nýliðum í þeim tegundum starfa. Ákvæðið gildi því ekki um ráðningar í embætti eða aðrar stjórnendastöður og ekki um kennarastöður í menntakerfinu. 

Í ákvæðinu segir einnig að vinnuveitanda sé frjálst að gera framlagningu læknisvottorðs um fullnægjandi heilsu að skilyrði fyrir áframhaldandi störf heilbrigðisstarfsmanns eftir sjötugt. En ákvæðið veitir ekki heilbrigðisstarfsfólki sjálfstæðan rétt til þess að starfa fram yfir sjötugt heldur aðeins heimild til handa vinnuveitenda til þess að ráða í stöður sem nauðsynlegt er að manna.

Þannig færi svo að ef tveir jafnhæfir heilbrigðisstarfsmenn sækja um sömu stöðu skal ráða þann sem er undir sjötugu, sé hinn umsækjandinn kominn yfir sjötugt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×