Rafrettur eru þannig séð ekki nýjar af nálinni hér á landi. Einnota rafrettur eru það hins vegar. Hægt var að fylla á rafrettuvökvann í þeim græjum sem komu fyrst á sjónarsviðið. Nú er hins vegar mun vinsælla að kaupa einnota græjur. Ekki þarf að fylla á vökvann í þeim heldur bara kaupa nýja.
Greint var frá því í mars að notkun einnota rafretta hafi tvöfaldast á þremur árum.
Innihalda ýmisleg efni
Í breskri rannsókn sem gerð var á einnota rafrettum kom í ljós að þær innihéldu meðal annars blý, nikkel og króm.
Í frétt Vísis um rannsóknina var rætt við lækni og lýðheilsusérfræðing sem sagði notkun rafrettanna vera stórhættulega þar sem blýið geti safnast saman í líkama fólks. Hún segir að blýeitrun gæti valdið greindarskerðingu.
Rafretturnar hafa þó ekki einungis áhrif á fólkið sem notar þær heldur einnig umhverfið. Einar Bárðarson er mikill umhverfissinni og plokkari. Hann segir að allt sem heiti einnota megi hverfa hans vegna.
„Allt eitthvað einnota í viðbót við það sem við erum að reyna að losa okkur við, er bara einhvern veginn svona mikil hugmyndafræðileg skekkja bara á þessari öld,“ segir Einar.
Ekki bara slæm áhrif á umhverfið
Hann bendir á að rafretturnar hafa ekki einungis hafa áhrif á umhverfið.
„Ég held að þetta sé verst fyrir krakka, börn sem vita ekki hvað þetta er. Fara að fikta í þessu, ég held að það sé lang mesta hættan í þessu. Þó að umhverfisáhrifin séu alls ekki góð,“ segir Einar.
Fengi hann að ráða yrði allt einnota bannað.
„Mín skoðun er bara sú að allt sem heitir plast og byrjar á einnota, á ekki rétt á sér á 21. öldinni.“
Sama hvort það sé veip, drykkjarmál eða hvað sem er?
„Já, það hljóta að vera til betri leiðir til þess að njóta veipsins heldur en í einnota formi,“ segir Einar.
Þetta eru samt ákveðin þægindi að geta gripið nýtt og sleppt því að fylla á?
„Já, en óþægindi fyrir aðra,“ segir Einar.