Skoðun

Ís­lendingar standa ekki gegn hatri

Þórarinn Hjartarson skrifar

Miðað við atburði undanfarnar þrjár vikur er ljóst að baráttan er ekki búin og mikilvægt er að standa gegn hatri. Fólk sem hefur ekkert unnið sér til saka annað en að gera tilraun til þess að vera þau sjálf og fá viðurkenningu frá samfélaginu verður nú fyrir aðkasti á samfélagsmiðlum. Hatursöflum er að vaxa fiskur um hrygg.

Sem andsvar við þessu hefur samviskusamt fólk og fyrirtæki birt mynd á samfélagsmiðlum sem hljóðar svo: Stöndum saman gegn hatri #hinseginleikinn

Einföld en kraftmikil yfirlýsing sem vottar að sá og hinn sami sé góð manneskja. Það sem hryggir undirritaðann er hins vegar hversu margir hafa kosið að birta ekki yfirlýsinguna og þannig staðið með hatrinu. Því þeir sem eru ekki tilbúnir að verja þremur sekúndum í að ýta á deilingarhnappinn og sýna í verki að þeir standi gegn hatri eru líklega með hugmyndir sem í besta falli geta talist varhugaverðar.

Í leikriti Arthur Miller frá 1953, sem ber heitið The Crucible, er varpað ljósi á tengsl aðgerðarleysis og undirliggjandi álita og viðhorfa. Þeir sem ekki sýna í verki að þeir séu reiðubúnir að koma málstaðnum til varnar standa ekki einvörðungu aðgerðarlausir heldur eru þeir líklegir til þess að vinna gegn réttlátum markmiðum þegar tækifærið gefst. Ef stjórnvöld grípa ekki inn í áður en langt um líður dreifist hatrið stjórnlaust yfir allt samfélagið.

Því velti ég upp eftirfarandi spurningunum: Erum við umburðarlynd þjóð? Erum við opin fyrir réttlátum breytingum? Eða erum við umlukin fólki sem hatar, sem er ekki tilbúið að sýna samstöðu þegar á reynir, jafnvel með einni deilingu á samfélagsmiðlum?

Það er ljóst að við erum ekki á þeim stað sem við teljum okkur í trú um að við séum. Við búum ekki í réttindavænu samfélagi. Fólk sem nýtir eigin hugmyndir um tjáningarfrelsi fær að spúa hatri óáreitt á meðan langflestir standa hjá. Engin mannréttindastofa er til staðar til að fylgjast með færslum fólks á samfélagsmiðlum. Það er morgunljóst að þetta er útrýmingarstefna í aðsigi.

Frammi fyrir okkur stendur vandi. Það er hatursfullt fólk í okkar samfélagi. Við þurfum að standa gegn þeim. Ef þú stendur gegn hatri, afhverju sýniru það ekki í verki? Afhverju ertu ekki tilbúinn að deila myndinni? Í hvernig samfélagi vilt þú búa? Er ekki árið 2023? Erum við ekki komin lengra?

Stöndum gegn hatri. Deilum myndinni.

Höfundur er hlaðvarpsstjórnandi.




Skoðun

Sjá meira


×