Fyrstu níu mánuði ársins hefur 31 látist vegna eitrana á Íslandi. Enn á eftir að staðfesta dánarorsök í 25 málum sem eru til skoðunar hjá lögreglu. Flest andlátin eru vegna lyfjatengdra eitrana vegna neyslu á oxycontin, áfengis eða morfínskyldra lyfja. 38 prósent þeirra látnu voru konur og þriðjungur 30 ára eða yngri.
Þetta kemur fram í gögnum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Embættið safnar þessum gögnum saman árlega og ef litið er til síðustu ára voru andlátin 40 í fyrra í heildina og 53 árið 2021.

„Þetta eru háar tölur og hvert andlát er einu andláti of mikið af þessum orsökum,“ segir Ævar Pálmi Pálmason yfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Fram kom í fréttum í vor að lyfjatengd andlát hefðu aldrei verið fleiri og að fá fjórða tug væru til meðferðar hjá lögreglu, á þeim tíma.
„Sú tala sem var til skoðunar og var nefnd í vor gaf til kynna þau mál þar sem að var grunur að mögulega hefði andlát borið að með þessum hætti. Nú liggja fyrir niðurstöður réttarkrufningar úr þessum andlátum og þess vegna er talan 31 núna.“
Meiri neysla á oxycontin
Ævar segir þessi gögn mikilvæg til að geta til dæmis rýnt í ástand á til dæmis vímuefnamarkaði. Lögreglan merki einhverjar sveiflur í notkun á milli mánaða en að það sé aukning á til dæmis á notkun Oxycontins.
„Ég tel að ein helsta breytingin sem við sjáum sé aukin neysla á Oxycontin. Það er gríðarlega sterkt verkjalyf,“ segir Ævar Pálmi og að fólk geti sem dæmi kynnt sér þættina Dopesick þar sem vel er farið yfir uppruna og áhrif lyfsins.
Lögreglan er þó ekki ein um safna þessum gögnum því árlega eru birtar niðurstöður úr dánarmeinaskrá þar sem tekin eru saman lyfjatengd andlát. Bráðabirgðatölur þeirra fyrir árið í fyrra voru nýlega birtar og samkvæmt þeim létust 34 í fyrra vegna lyfjatengdra andláta og 46 árið á undan, sem er ekki það sama og kemur fram hjá lögreglu.

Spurður hvernig tölur þessara tveggja embætta eru ólíkar segir Ævar Pálmi að sem dæmi taki tölur landlæknisembættisins til þeirra sem látist á sjúkrastofnunum ef það líður meira en 24 klukkustundir frá því að þau voru innrituð en það geri þeirra tölur ekki.
„Tölur embættis landlæknis ná ekki til fólks með erlent lögheimili en tölur lögreglu ná til allra sem látast á Íslandi með voveiflegum hætti.“
Hann segir lögregluna hafa þá skyldu að koma á vettvang þar sem skyndilegt eða óvænt andlát ber að, eins og í heimahúsi eða þegar fólk finnst látið, og ekki sé hægt með óyggjandi hætti að greina dánarorsök. Hann segir það alltaf erfitt fyrir lögreglu að fara á slíkan vettvang og segir að hann myndi vilja sjá þessum andlátum fækka.