Skoðun

Líður að tíðum

Sigríður Hrund Pétursdóttir skrifar

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag, við erum gestir og hótel okkar er jörðin. En þó látum við líkt og við séum með tögl og hagldir í óskoruðum eignarrétti. Viðhorf er vald og nú þegar líður að tíðum er við hæfi að líta inn á við og opna hjörtu vor. 

Við höfum þann einstaka mátt að geta verið það samfélag sem við viljum búa í. Það veltur þó á okkur sjálfum. Innri ró og friður endurspeglar jafnvægi á milli líkama, anda og sálar. Hversu oft ferðu í leikfimi? Sinnir þú anda og sál jafn oft? Næring, hvíld og hreyfing er önnur þrenning sem hægt er að styðja sig við á Vegferðinni Lífinu. Hvernig nærir þú sálina? Hvernig hvílir þú andann? Hafa hjóm, síbylja og úreld hjólför fyrri tíma óheft aðgengi að þér? Ferðast þú létt og lipurt eða þungt og umfangsmikið?

Aðdragandi vetrarsólstaðna 21. desember - hinnar upprunalegu og raunverulegu hátíðar Ljóssins - og samliggjandi hátíðardaga eru fullkomið tækifæri til að hlú að, næra og hvíla okkur – á líkama, anda og sál. Með því að sinna okkur sem manneskjum hlúum við að og nærum samfélögin stór og smá sem við tilheyrum – fjölskyldu, vini, vinnu, áhugamál, sjálfboðaliðastarf o.s.frv. Tökum ábyrgð á hlutverkum okkar sem gestir, göngum vel um hótelið og verum þau Ljós sem okkur er ætlað að vera.

Við erum elskuð, vernduð og leidd – hvert og eitt dýrmæt, einstök og fágæt. Ferðumst saman sem slík.

Lífsbókin

(Lag / texti: Bergþóra Árnadóttir / Laufey Jakobsdóttir )

Ljúktu nú upp lífsbókinni,

lokaðu ekki sálina inni.

Leyfðu þeim í ljóði og myndum

leika ofar hæstu tindum.

Svipta burtu svikahulu,

syngja aftur gamla þulu.

Líta bæði ljós og skugga,

langa til að bæta og hugga.

Breyta þeim sem böli valda,

breyta stríði margra alda.

Breyta þeim sem lygin lamar,

leiða vit og krafta framar.

Gull og metorð gagna ekki

gangir þú með sálarflekki.




Skoðun

Sjá meira


×