Þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka fékk Haukamaðurinn Úlfur Gunnar Kjartansson að líta rauða spjaldið. Eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan virtist hann kýla Rúnar Kárason, stórskyttu Framara, í brjóstkassann.
„Ég verð að segja að þetta kemur mér ekki á óvart, það er mikill pirringur í Hauka-liðinu og nú virtist Úlfur vera að taka út einhvern pirring,“ skrifaði Dagur Lárusson í textalýsingu á Vísi frá leiknum.
Þegar þarna var komið við sögu höfðu Framarar þegar náð tíu marka forskoti, 28-18, og þeir unnu að lokum afar öruggan sigur, 33-23, eftir að hafa verið 20-11 yfir í hálfleik. Þetta var fjórða tap Hauka í röð.
Haukar misstu þar með af möguleika á að fara upp fyrir Framara sem eru í 5. sæti með 13 stig. Haukar eru jafnir KA í 6.-7. sæti með 10 stig.

Það ætti að skýrast eftir fund aganefndar HSÍ næsta þriðjudag hvort og þá hve langt leikbann Úlfur Gunnar fær fyrir brot sitt.