Þetta sagði McConnell á lokuðum þingflokksfundi í gær, samkvæmt Jake Sherman, blaðamanni þingmiðilsins Punchbowl News (áskriftarmiðill). Samkomulagið sem verið var að leita að sneri að því að herða öryggisgæslu á landamærunum og samþykkja hernaðaraðstoð til Úkraínu, sem Repúblikanar hafa neitað að samþykkja um mánaða skeið.
„Þegar við hófum þessa vegferð sameinuðu landamærin okkur og Úkraína klauf okkur. Pólitíkin í þessu hefur breyst,“ sagði McConnell.
Þá vísaði hann til Trumps sem „frambjóðandans“ og sagði að hann vildi að framboð hans snerist um innflytjendamálin.
„Við viljum ekki gera neitt til að grafa undan honum,“ sagði McConnell.
NEWS from me & @bresreports in @PunchbowlNews PM:
— Jake Sherman (@JakeSherman) January 24, 2024
MCCONNELL told a closed meeting of Senate Republicans Wed that the politics of the border has flipped for Rs and cast doubt on linking Ukraine and border.
When we started this, the border united us and Ukraine divided us.
Undanfarna tvo mánuði hafa Repúblikanar í öldungadeildinni átt í miklum viðræðum við Demókrata og fulltrúardeildarþingmenn Repúblikanaflokksins um mögulega lausn á deilunni um aðgerðir á landamærunum og hernaðaraðstoð handa Úkraínumönnum.
Nokkrir Repúblikanar hafa sagt opinberlega á undanförnum vikum að þeir óttist að gera samkomulag um aðgerðir á landamærunum því það gæti verið pólitískur sigur fyrir Joe Biden, forseta. Ef marka má McConnell hefur þessum viðræðum verið hætt.
Rúm vika er síðan McConnell, sem hefur verið mikill stuðningsmaður frekari hernaðaraðstoðar til Úkraínu, sagði Repúblikana hafa einstakt tækifæri til að grípa til aðgerða á landamærunum. Þeir hefðu vogarafl með hernaðaraðstoðinni handa Úkraínumönnum sem gæti tryggt þeim atkvæði frá Demókrötum.
Hann sagði að jafnvel þó Repúblikanar myndu halda meirihluta sínum í fulltrúadeildinni, ná meirihluta í öldungadeildinni og vinna Hvíta húsið í kosningunum í nóvember, myndu þeir þurfa atkvæði frá öldungadeildarþingmönnum Demókrataflokksins til að grípa samþykkja frumvarp um aðgerðir á landamærunum.
Það er vegna þess að margskonar frumvörp, eins og mörg þeirra sem snúa að landamæraöryggi Bandaríkjanna, þurfa sextíu atkvæði í öldungadeildinni en ekki fimmtíu.
Raða sér upp að baki Trumps
Trump á nánast örugga leið að tilnefningu Repúblikanaflokksins eftir sigra í fyrstu tveimur forvölum flokksins í Iowa og New Hampshire. Eftir um mánuð fer svo fram forval í Suður-Karólínu og benda kannanir til þess að Trump hafi mikið forskot á Nikki Haley, helsta mótframbjóðanda sinn.
Repúblikanar á þingi hafa fylkt sér að baki Trump á undanförnum dögum og jafnvel vikum. Þeirra á meðal eru þingmenn sem hafa verið harðorðir í garð Trumps eftir að frambjóðendur á hans vegum töpuðu í stórum stíl í þingkosningunum 2022.
Minnst 29 af fimmtíu þingmönnum flokksins í öldungadeildinni hafa lýst yfir stuðningi við Trump. Fjölmargir þingmenn flokksins í fulltrúadeildinni hafa gert það einnig.
McConnell hefur þó ekki lýst yfir stuðningi við Trump, að öðru leyti en að segja að hann muni styðja frambjóðanda flokksins. Hann og Trump hafa lengi eldað grátt silfur saman og Trump hefur ítrekað farið ófögrum orðum um þingmanninn.
Meðal annars hefur Trump kallað McConnell heimskan tíkarson, fýlda pólitíska bikkju og hótað honum lífláti undir rós.