Biden sagði í Hvíta húsinu í dag að hann væri búinn að taka ákvörðun um viðbrögð en ítrekaði að hann hefði ekki áhuga á stríði við Íran, sem styður marga vígahópa í Írak, Sýrlandi og víðar sem gert hafa linnulausar árásir á bandaríska hermenn í Mið-Austurlöndum á undanförnum vikum.
Frá því í október hafa verið gerðar tæplega 170 árásir á Bandaríska hermenn og langflestar þeirra í Írak og Sýrlandi.
Forsetinn sagði klerkastjórnina í Íran bera ábyrgð á árásinni þar sem hún hefði gefið áðurnefndum hópum vopn sem voru notuð. Yfirvöld í Íran segjast ekki hafa komið að árásinni.
Margir þeirra vígahópa sem Íranar styðja í Mið-Austurlöndum hafa myndað nokkurs konar regnhlífarsamtök sem kallast Íslamska andspyrnuhreyfingin.
Umrædd árás var gerð af meðlimum írakska vígahópsins Kataib Hezbollah. Hópurinn er einn margra í Írak sem nýtur stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran. Þeir voru stofnaðir þegar baráttan gegn ISIS stóð sem hæst en þessir hópar heyra formlega séð undir írakska herinn.
Bandarískir hermenn Í Írak og Sýrlandi hafa orðið fyrir árásum frá Kataib Hezbollah og öðrum hópum tengdum Íran um árabil. Frá því stríð Ísrael og Hamas-samtakanna hófst í október hefur þeesum árásum fjölgað gífurlega.
Forsvarsmenn Kataib Hezbollah sendu fyrr í kvöld út yfirlýsingu um að árásum á bandaríska hermenn í Mið-Austurlöndum yrði hætt í bili. Mun það vera til að forða ríkisstjórn Írak frá vandræðum. Eins og áður segir heyrir Kataib Hezbollah og aðrir sambærilegir hópar formlega undir írakska herinn. Í raun stjórna þeir sér að mestu leyti sjálfir.
Sjá einnig: Ræða veru bandarískra hermanna í Írak
Þá sagði einnig í yfirlýsingunni að yfirvöld í Íran hefðu ekki komið að árásinni.
Samkvæmt frétt Washington Post eru um 2.500 bandarískir hermenn í Írak og Sýrlandi og um þrjú þúsund í Jórdaníu. Formlegt verkefni hermannanna í Írak og Sýrlandi er að koma í veg fyrir mögulega endurkomu Íslamska ríkisins og að þjálfa írakskar öryggissveitir.