Á gengi dagsins í dag samsvara 55 milljarðar dala um 7,5 billjónum króna (7.500.000.000.000).
Hluthafi sem höfðaði málið sagði stjórn Tesla hafa farið gegn skyldum sínum og afvegaleitt hluthafa. Hann sagði einnig að viðræðurnar um kauprétt Musks hafi verið sviksamar, þar sem meðlimir stjórnarinnar heyrðu undir Musk sjálfan og væru of nánir honum til að geta samið við hann.
Samkvæmt frétt CNN héldu lögmenn Richards Tornetta, hluthafa í Tesla, því einnig fram að árangursviðmiðin sem Tesla þurfti að ná svo Musk fengi kaupréttinn hefðu verið í samræmi við innri spár fyrirtækisins og því hefði ekki verið um neins konar framúrskarandi frammistöðu hans að ræða sem stjórnanda.
Musk á þrettán prósent í Tesla og er því stærsti hluthafi í fyrirtækinu. Hann seldi hluta hlutabréfa sinna árið 2022 til að kaupa Twitter. Undanfarnar vikur hefur hann reynt að styrkja tak sitt á fyrirtækinu og sagt að hann vilji eiga fjórðung í því.
Elon Musk birti færslu á samfélagsmiðli sínum X (áður Twitter) í kvöld þar sem hann skrifaði bara eina setningu: „Ekki skrá fyrirtæki ykkar í Delaware.“
Never incorporate your company in the state of Delaware
— Elon Musk (@elonmusk) January 30, 2024
Mörg af stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna eru skráð í Delaware þar sem ríkið er með lægri skattbyrði á fyrirtæki en flest önnur.
Lögmenn Musks sögðu 73 prósent hluthafa Tesla, að honum sjálfum og bróður hans undanskildum, hafa samþykkt kaupréttarsamninginn í atkvæðagreiðslu. Þeir segja einnig að virði hlutabréfa hluthafa hafi aukist til muna og að Musk hefi ekki greitt sér nein laun eða bónusa að öðru leyti.
Dómarinn Kathaleen McCormick tók þó ekki undir þann málflutning og sagði að hlutabréf Musks í Tesla væru virði tuga milljarða dala, svo ekki væri rétt að hann hefði ekki fengið neitt fyrir störf sín hjá fyrirtækinu.
Hún sagði að ferlið varðandi kaupréttarsamninginn innan Tesla hafi verið verulega gallað.
Ekki liggur fyrir hvort úrskurðinum verði áfrýjað.