Myndband af ökumanni rútu aka á fleygiferð á öfugum vegahelmingi á Reykjanesbrautinni hefur farið eins og eldur um sinu á netmiðlum og þykir mikið mildi að ekki hafi orðið stórslys.
Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir málið í skoðun. Lögregla hafi ekki hugmynd um hvað ökumanninum gekk til en lögreglufulltrúar viti um hvaða fyrirtæki sé að ræða þó erfiðlega hafi gengið að ná sambandi við forsvarsmenn þess.
Rútufyritækið Arctic Oro hefur verið tengt við málið eftir að netverjar ráku bílnúmer rútunnar til fyrirtækisins. Ólafur Jónsson, aðaleigandi Arctic Oro segir fyrirtækið hafa hlotið orðsporshnekki vegna málsins. Hið rétta sé að rútan hafi verið í viðgerð hjá verkstæðinu Vélrás og starfsmaður þess ekið rútunni.
Salómon Viðar Reynisson, eigandi Vélrásar, segir atvikið litið alvarlegum augum. Hann vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins en segir að tekið verði á því innanhúss, hvort sem það endi með brottrekstri eða öðru. Aðspurður hvort hann viti hver ökumaðurinn sé segist hann kominn góða hugmynd um það. Hann segir ljóst að þarna hafi verið um mannleg mistök að ræða.