Innlent

Telur morgunljóst að nýju búvörulögin séu ó­lög­leg

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur segir líklegt að lögin yrðu dæmd ógild ef á það yrði reynt fyrir dómstólum.
Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur segir líklegt að lögin yrðu dæmd ógild ef á það yrði reynt fyrir dómstólum. visir/einar

Stjórnsýslufræðingur segir að nýsamþykkt búvörulög hafi verið ólöglega sett því breytingarfrumvarpið hafi breyst of mikið við aðra umræðu. Hann telur að málið yrði dæmt ógilt ef það færi fyrir dómstóla.

Alþingi samþykkti fyrir helgi breytingar á búvörulögum en með þeim eru kjötafurðastöðvar undanþegnar samkeppnislögum. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð þingsins og segir raunar að lögin sem voru samþykkt hafi verið allt önnur en það frumvarp sem hann tók afstöðu til í umsagnaferli. Starfandi matvælaráðherra hefur þá sagt að það sé mikilvægt að ráðuneytið og þingnefnd fari yfir þær athugasemdir sem bárust.

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur segir að lögin hafi verið ólöglega sett en í stjórnarskrá segir að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hafi fengið þrjár umræður á Alþingi, en Haukur færir rök fyrir því í grein í Morgunblaðinu að frumvarpið hafi aðeins hlotið tvær umræður.

„Ég tel að málið hafi breyst of mikið við aðra umræðu þannig að í lok annarrar umræðu þá hafi það með breytingum verið orðið að öðru máli en var rætt við fyrstu umræðu.“

Málið taki til annars hóps en lagt var upp með.

„Þetta breytir alveg um stefnu því í upphaflega frumvarpinu er gert ráð fyrir að frumframleiðendur, sem eru bændur, séu undanþegnir samkeppnislögum og þeirra félög en í frumvarpinu er samkeppnislögum kippt úr sambandi við kjötframleiðslu þannig að í fyrra tilvikinu eru það undantekningar en í seinna tilvikinu er það aðalregla. Í fyrra tilvikinu er miðað við stöðu bænda í nágrannaríkjunum og ráðherra talar um að þetta sé eins og fólk á vinnumarkaði fái að mynda sér stéttarfélög en þegar búið er að breyta málinu þá er gengið miklu lengra í frjálsræðisátt gagnvart afurðastöðvum en er í nágrannalöndunum þannig að það er svo sem alveg sama hvar þú lítur á þetta, það er ekki bara texti frumvarpsins sem er gerbreyttur heldur efni, innishaldið, viðmiðanirnar og sú stefna sem þetta er í, þetta er allt breytt“

Hægt er að kæra mál sem þessi til dómstóla. Hann hafi mikla þekkingu á málinu og hafi skrifað bók um málsmeðferð frumvarpa á Alþingi sem nefnist Mín eigin lög.

„Ég hef ekki áður séð mál á Alþingi sem er svona hreint, nú fer Alþingi ansi frjálslega með stjórnarskrárákvæðin um sín störf en ég hef ekki séð áður mál sem er svona hreint þannig að það væri mjög líklegt að það væri dæmt ógilt. Ef það væri kært þá reikna ég ekki með því að Alþingi reyni að verja þetta fyrir dómstólum ég reikna með að þetta yrði dregið til baka.“


Tengdar fréttir

Harðar deilur um ágæti nýrra búvörulaga

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Sigmar Guðmundsson voru til viðtals í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Rætt var um ný búvörulög og áhrif þeirra á íslenska neytendur og bændur. Sigurður segir lögin sambærileg lögum Norðurlandanna og feli í sér mikla kjarabót bæði fyrir bændur og neytendur. Sigmar er ósammála og segir löggjöfina geta skapað hvata fyrir stór fyrirtæki til að bjóða neytendum hærra verð.

„Algjörlega búið að kippa samkeppnislögunum úr gildi“

Þingmaður Viðreisnar segir kaldhæðnislegt að í sömu viku vinni Alþingi að því að ríkisvæða tryggingarfélag og útrýma samkeppni á búvörumarkaði. Hann telur að fólk átti sig ekki á hversu slæmar afleiðingar breytingarnar á búvörulögunum muni hafa, bæði á bændur og neytendur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×