Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem einnig barst tilkynning um að reynt hafi verið að komast í sjálfsafgreiðsluvél á bensínstöð. Þjófarnir eru sagðir hafa farið tómhentir af vettvangi þar sem þeim hafi ekki tekist að brjóta upp vélina.
Hélt líkamsárás áfram
Tilkynnt um slagsmál utan við skemmtistað í miðbænum og þegar lögreglumenn komu á vettvang urðu þeir vitni að áframhaldandi líkamsárás. Tveir einstaklingar voru handteknir vegna málsins og gista fangageymslur í þágu rannsóknar þess.
Á fjórða tímanum í nótt var lögreglu tilkynnt um mann sem hótaði að stinga annan vegna deilna þeirra á milli. Við athugun kom í ljós að maðurinn var óvopnaður, mjög ölvaður og ekki líklegur til ofbeldis, að sögn lögreglu. Málið er nú sagt í rannsókn.
Þá var tilkynnt um blóðugan mann á gangi í Vesturbæ Reykjavíkur um klukkan eitt í nótt. Maðurinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang.