Katrín segir í yfirlýsingu að hún muni biðjast lausnar úr embætti forsætisráðherra og bjóða sig fram til forseta. Hún muni á næstu vikum ferðast um landið og tala við landsmenn um framtíðina.
Hún segir alls ekki gefið að hún, sem hafi verið í stjórnmálum í tuttugu ár, bjóði sig fram til forseta. Hún hafi fyrir nokkuð löngu síðan ákveðið að hún myndi ekki gefa kost á sér í komandi Alþingiskosningum. Hún telji þó að hún geti áfram gert landi og þjóð gagn og því hafi hún ákveðið að bjóða sig fram til forseta.
„Sú reynsla sem ég hef af stjórnmálum, reynslan af því að leiða saman ólíka hópa og sá skilningur sem ég hef öðlast á þeim tíma, gerir það að verkum að hún geti nýst vel í þessu embætti.“
Katrín tilkynnti framboð sitt í myndbandsfærslu á samfélagsmiðlum.
Forsetinn þurfi að sýna forystu og auðmýkt
Katrín segir að hún hafi undanfarið velt fyrir sér forsetaembættinu. Það sé mikilvægt embætti. Forsetinn þurfi að skilja gangverk stjórnmála og samfélags, hann þurfi að geta sýnt forystu og auðmýkt, hann þurfi að gæta hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi, hann þurfi að geta tekið erfiðar ákvarðanir, óháð stundarvinsældum, hann þurfi að geta talað til þjóðarinnar allrar. „Enda verður ekki af honum tekið að hann er kosinn af þjóðinni.“
Risastórar áskoranir framundan
Katrín segir okkur stödd á flóknum tímum. Stríðsátökum hafi fjölgað í heiminum. Við stöndum frammi fyrir risastórum áskorunum á sviði loftslags og umhverfismála. Tækniþróunin sé á slíkum hraða að annað eins hefur ekki sést og aldrei hafi verið mikilvægara að efla og gæta mennskunni.
„Á slíkum tímum þurfum við að horfa á undirstöðurnar, menntun og menningu. Þurfum að tryggja íslenska tungu sem er okkar rótfesta, en á sama tíma þurfum við að standa vörð um fjölbreytnina sem einkennir íslenskt samfélag. Í öllum þessum málum hefur forsetinn hlutverki að gegna, að tala skýrt fyrir þeim grunngildum sem við byggjum íslenskt samfélag á, lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu. Bæði hér heima og á alþjóðavettvangi.“
Fréttin hefur verið uppfærð.