Íslandsbanki er aðalstyrktaraðli Reykjavíkurmaraþonsins og auglýsir maraþonið í ágúst með athyglisverðum hætti eða með því að rifja upp sögulegt hlaup í fyrsta maraþonhlaupinu fyrir fjórum áratugum síðan.
Fríða Bjarnadóttir hljóp fyrst íslenskra kvenna heilt maraþon hér á landi. Hún sagði í auglýsingunni frá fyrsta hlaupi sínum árið 1984, sinni upplifun og mikilvægi þess að taka fyrsta skrefið.
„Árið 1983 var haldið maraþonhlaup á Reykjavíkursvæðinu. Mig langaði að hlaupa en mér var meinuð þátttaka. Konur áttu bara ekki að vera í svona langhlaupum,“ sagði Fríða.
„Í fyrsta Reykjavíkurmaraþoninu árið 1984 fékk ég þó að taka þátt. Á meðan á hlaupinu stóð voru einhverjir karlar sem flautuðu á mig úr bílum sínum og voru greinilega ósáttir við þessa hlaupandi konu. En ég komst í mark og þá var fyrsta skrefið stigið,“ sagði Fríða.
„Ég var fyrsta íslenska konan til að hlaupa heilt maraþon á Íslandi. Það hefur sem betur fer margt breyst á þessum fjörutíu árum og mörg góð skref verið stigin síðan þá,“ sagði Fríða í auglýsingunni en hana má sjá alla hér fyrir neðan.