Innlent

Viður­kennir að hafa brugðist of hægt við áhyggjuröddum heimilis­lækna

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Það er örlítið rok í höfuðborginni. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fékk að kenna lítillega á því.
Það er örlítið rok í höfuðborginni. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fékk að kenna lítillega á því. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra viðurkennir að hafa brugðist of hægt við áhyggjuröddum heimilislækna varðandi álag vegna skriffinsku. Hann ætlar að minnka kröfur um vottorða- og tilvísunarskrif og hefur boðað fulltrúa Félags heimilislækna á fund eftir helgi. 

Fyrir viku síðan fjölluðum við um mikla skriffinsku lækna. Heimilislæknir sagði stóran hluta af vinnudeginum fara í pappírsvinnu sem sé að hans mati óþarfi en verði til þess að læknar hafi varla tíma til að hitta sjúklinga sem skili sér í langri bið eftir tíma hjá heimilislækni.

Heilbrigðisráðherra segist meðvitaður um stöðuna. Kröfur frá stjórnsýslunni og vinnumarkaðnum um skriffinsku lækna hafi aukist í gegnum tíðina. Hann segist í góðu sambandi við stéttina og ætlar að leysa þessi mál.

„Ég get nefnt að við erum nú þegar búin að afnema tilvísanir fyrstu sex skiptin til sjúkraþjálfara og það eru nokkur þúsund samskipti sem sparast við það. Þannig það er hægt að fara beint til sjúkraþjálfara,“ sagði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Klippa: Viðurkennir sein viðbrögð

Þá séu fleiri slík skref til skoðunar og nefnir hann sem dæmi tilvísunarskyldu til barnalækna.

„Og þar er full samstaða barnalækna og heilsugæslulækna um að létta á því kerfi. Þannig við erum að taka lið fyrir lið hvar við getum náð fram vinnusparnaði og þá reglugerðarbreytingum í samvinnu við lækna.“

Fleiri skref verði stigin í átt að minni skriffinsku. Willum viðurkennir að hafa brugðist of hægt við áhyggjuröddum lækna og hefur boðað Félag heimilislækna á fund eftir helgi.

„Já ég bara tek það til mín að hafa brugðist of hægt við. Þetta er mikið álag, það blasir við. Þannig við þurfum að ná fram betri og aukinni hagræðingu í samvinnu við lækna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×