„Tilfinningin er bara frábær. Það er hrikalega gaman að spila fyrir framan fulla höll og stuðningurinn var frábær. Þetta er bara æðislegt,“ sagði Einar Bragi í leikslok, en Einar spilaði síðustu átta mínútur leiksins. Hann segist einfaldlega ekki muna hvort taugarnar hafi verið þandar þegar hann kom inn á í fyrsta skipti í bláu treyjunni.
„Ef ég á að segja þér alveg eins og er þá man ég það ekki, en þetta var ótrúlega gaman. Ég er mjög þakklátur.“
„Það er frábært að byrja þetta svona. Mjög gott að sjá hversu fast við stigum inn í þennan leik og sýndum gæðamuninn. Ég er ánægður með það.“
Hann segist þó ekki vera farinn að velta því fyrir sér hvort hann verði í hóp á laugardaginn þegar íslenska liðið mætir Eistum ytra í seinni leik liðanna.
„Ég tek bara einn dag fyrir í einu þessa dagana. En við mætum bara þangað til þess að vinna og vinna sannfærandi,“ sagði nýliðinn Einar Bragi að lokum.