Leik lokið: FH - Þór/KA 0-1 | Sandra María skoraði strax og tryggði sigur Hinrik Wöhler skrifar 11. júní 2024 19:15 Sandra María Jessen hefur byrjað Íslandsmótið af miklum krafti. vísir/Hulda Margrét FH féll úr leik í Mjólkurbikar kvenna eftir 0-1 tap gegn Þór/KA. Sandra María Jessen kom inn á í hálfleik og skoraði strax á 48. mínútu til að tryggja sigur. FH ógnaði í upphafi leiks og átti Ída Marín Hermannsdóttir hnitmiðað skot á 7. mínútu fyrir utan vítateig sem endaði í stönginni. Munaði ekki miklu og gestirnir frá Akureyri sluppu með skrekkinn. Leikurinn fór fram meira og minna á miðsvæðinu og náðu liðin ekki að skapa sér almennileg færi framan af. Þór/KA fékk hættulegasta færi fyrri hálfleiks þegar Lara Ivanusa slapp ein í gegn inn fyrir vörn FH. Hún náði að setja tána í boltann en hitti ekki markið og rann boltinn rétt fram hjá marki FH. Staðan var markalaus þegar blásið var til hálfleiks í Kaplakrika. Markahæsti leikmaður Bestu deildar kvenna, Sandra María Jessen, kom inn í hálfleik fyrir Þór/KA og var ekki lengi að láta að sér kveða. Sandra María þurfti aðeins rúmlega tvær mínútur til að opna markareikning sinn. Hulda Ósk Jónsdóttir hélt boltanum vel inn í vítateig FH og á endanum kom hún boltanum á Söndru Maríu. Sandra var alein á móti Aldísi Guðlaugsdóttur í marki FH og brást ekki bogalistin og setti knöttinn auðveldlega fram hjá Aldísi. Leikurinn var líflegri í síðari hálfleik og fengu heimakonur gullið tækifæri til að jafna leikinn á 59. mínútu. Sóknarmaður FH, Breukelen Woodard, féll við í vítateignum og fékk FH vítaspyrnu. Shelby Money, markvörður Þór/KA, gerði sér lítið fyrir og varði spyrnu Andreu Hauksdóttur. FH fór framar á völlinn og reyndi að skora en leikmönnum liðsins tókst ekki ætlunarverk sitt og endaði leikurinn 1-0 fyrir Þór/KA. Atvik leiksins Það vakti athygli að Sandra María Jessen byrjaði á varamannabekk Þór/KA en átti síðan frábæra innkomu. Það gerðist lítið í fyrri hálfleik og sóknarmaðurinn skeinuhætti þurfti aðeins tvær mínútur til að koma sér á blað og á endanum tryggði Þór/KA farseðilinn í undanúrslit. Stjörnur og skúrkar Shelby Money varði vítaspyrnu í síðari hálfleik og var afar örugg í vítateignum. Hún var með betri leikmönnum vallarins líkt og varnarlína Þór/KA í heild sinni. Sandra María Jessen var síðan herslumunurinn fram á við í síðari hálfleik. Andrea Rún Hauksdóttir nagar sig í handarbökin en hún nýtti ekki vítaspyrnu á 59. mínútu. Spyrnan var í þægilegri hæð fyrir Shelby Money í marki Þór/KA og fór kjörið tækifæri fyrir FH forgörðum. Dómarar Twana Khalid Ahmed var með flautuna í dag. Hann dæmdi vítaspyrnu á 59. mínútu og miðað við lítil mótmæli Þór/KA þá var þetta réttur dómur. Að öðru leyti hélt hann ágætlega um leikinn og getur farið sáttur af velli. Stemning og umgjörð Það var rjómablíða á Kaplakrikavelli í dag og grasið iðagrænt. Fínasta sumarstemning í Krikanum en af skiljanlegum ástæðum var ekki mikið af áhorfendum frá gestaliðinu. Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, sagði í viðtali eftir leik að það var hans eina ósk að fá heimaleik í undanúrslitum og má búast við fleiri stuðningsmönnum Þór/KA ef draumur hans verður að veruleika. „Erfiðara að koma inn á en að byrja leiki“ Markaskorari leiksins, Sandra María Jessen, var að vonum sátt með að komast áfram á móti erfiðum mótherja. „Það er ekki annað hægt en að vera sátt, þetta eru allt eða ekkert leikir. Við erum komnar áfram og það er eina sem skiptir máli. Rosa gaman að hafa unnið á erfiðum útivelli. FH er mjög erfitt lið, ákveðið og gróft, það er erfitt að spila á móti þeim. Það er alls ekki sjálfsagt að komast áfram á móti þeim,“ sagði Sandra María eftir leikinn. Hún byrjaði leikinn á varamannabekknum en kom inn á í hálfleik og skoraði skömmu síðar. Hún viðurkenndi að þetta væri aðeins öðruvísi tilfinning en vanalega. „Þetta var öðruvísi, ég hef ekki setið mikið á bekknum undanfarið. Að sama skapi er gaman að sjá hvað stelpurnar stóðu sig vel inn á og gaman að koma inn á og hjálpa þeim að landa þessu. Þetta var virkilega erfitt og ég viðurkenni það að það er erfiðara að koma inn á en að byrja leiki. Maður er alltaf að gera nýtt í þessu.“ Var hún sammála þessari ákvörðun hjá þjálfara liðsins? „Skynsemin segir já en auðvitað langar manni alltaf að spila. Þegar maður er orðin eldri og verður aðeins reyndari þá skilur maður frekar þessar ákvarðanir. Þegar maður var yngri hefði maður getað harkað þetta af sér en ég held að þetta hafi verið skynsamlegt hjá Jóa [Jóhanni Kristni Gunnarssyni] og ég var bara sammála þegar hann kom með þessa hugmynd,“ sagði Sandra. Sandra María er aðeins með eina ósk þegar hún var spurð út í undanúrslitin. „Ég ætla að óska mér heimavöll. Við erum búnar að fá tvo útileiki og við eigum skilið að fá heimaleik. Þetta er alltaf mikið ferðalag fyrir okkur og þannig náum við líka að minnka álag.“ Fótbolti Íslenski boltinn Mjólkurbikar kvenna FH Þór Akureyri KA
FH féll úr leik í Mjólkurbikar kvenna eftir 0-1 tap gegn Þór/KA. Sandra María Jessen kom inn á í hálfleik og skoraði strax á 48. mínútu til að tryggja sigur. FH ógnaði í upphafi leiks og átti Ída Marín Hermannsdóttir hnitmiðað skot á 7. mínútu fyrir utan vítateig sem endaði í stönginni. Munaði ekki miklu og gestirnir frá Akureyri sluppu með skrekkinn. Leikurinn fór fram meira og minna á miðsvæðinu og náðu liðin ekki að skapa sér almennileg færi framan af. Þór/KA fékk hættulegasta færi fyrri hálfleiks þegar Lara Ivanusa slapp ein í gegn inn fyrir vörn FH. Hún náði að setja tána í boltann en hitti ekki markið og rann boltinn rétt fram hjá marki FH. Staðan var markalaus þegar blásið var til hálfleiks í Kaplakrika. Markahæsti leikmaður Bestu deildar kvenna, Sandra María Jessen, kom inn í hálfleik fyrir Þór/KA og var ekki lengi að láta að sér kveða. Sandra María þurfti aðeins rúmlega tvær mínútur til að opna markareikning sinn. Hulda Ósk Jónsdóttir hélt boltanum vel inn í vítateig FH og á endanum kom hún boltanum á Söndru Maríu. Sandra var alein á móti Aldísi Guðlaugsdóttur í marki FH og brást ekki bogalistin og setti knöttinn auðveldlega fram hjá Aldísi. Leikurinn var líflegri í síðari hálfleik og fengu heimakonur gullið tækifæri til að jafna leikinn á 59. mínútu. Sóknarmaður FH, Breukelen Woodard, féll við í vítateignum og fékk FH vítaspyrnu. Shelby Money, markvörður Þór/KA, gerði sér lítið fyrir og varði spyrnu Andreu Hauksdóttur. FH fór framar á völlinn og reyndi að skora en leikmönnum liðsins tókst ekki ætlunarverk sitt og endaði leikurinn 1-0 fyrir Þór/KA. Atvik leiksins Það vakti athygli að Sandra María Jessen byrjaði á varamannabekk Þór/KA en átti síðan frábæra innkomu. Það gerðist lítið í fyrri hálfleik og sóknarmaðurinn skeinuhætti þurfti aðeins tvær mínútur til að koma sér á blað og á endanum tryggði Þór/KA farseðilinn í undanúrslit. Stjörnur og skúrkar Shelby Money varði vítaspyrnu í síðari hálfleik og var afar örugg í vítateignum. Hún var með betri leikmönnum vallarins líkt og varnarlína Þór/KA í heild sinni. Sandra María Jessen var síðan herslumunurinn fram á við í síðari hálfleik. Andrea Rún Hauksdóttir nagar sig í handarbökin en hún nýtti ekki vítaspyrnu á 59. mínútu. Spyrnan var í þægilegri hæð fyrir Shelby Money í marki Þór/KA og fór kjörið tækifæri fyrir FH forgörðum. Dómarar Twana Khalid Ahmed var með flautuna í dag. Hann dæmdi vítaspyrnu á 59. mínútu og miðað við lítil mótmæli Þór/KA þá var þetta réttur dómur. Að öðru leyti hélt hann ágætlega um leikinn og getur farið sáttur af velli. Stemning og umgjörð Það var rjómablíða á Kaplakrikavelli í dag og grasið iðagrænt. Fínasta sumarstemning í Krikanum en af skiljanlegum ástæðum var ekki mikið af áhorfendum frá gestaliðinu. Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, sagði í viðtali eftir leik að það var hans eina ósk að fá heimaleik í undanúrslitum og má búast við fleiri stuðningsmönnum Þór/KA ef draumur hans verður að veruleika. „Erfiðara að koma inn á en að byrja leiki“ Markaskorari leiksins, Sandra María Jessen, var að vonum sátt með að komast áfram á móti erfiðum mótherja. „Það er ekki annað hægt en að vera sátt, þetta eru allt eða ekkert leikir. Við erum komnar áfram og það er eina sem skiptir máli. Rosa gaman að hafa unnið á erfiðum útivelli. FH er mjög erfitt lið, ákveðið og gróft, það er erfitt að spila á móti þeim. Það er alls ekki sjálfsagt að komast áfram á móti þeim,“ sagði Sandra María eftir leikinn. Hún byrjaði leikinn á varamannabekknum en kom inn á í hálfleik og skoraði skömmu síðar. Hún viðurkenndi að þetta væri aðeins öðruvísi tilfinning en vanalega. „Þetta var öðruvísi, ég hef ekki setið mikið á bekknum undanfarið. Að sama skapi er gaman að sjá hvað stelpurnar stóðu sig vel inn á og gaman að koma inn á og hjálpa þeim að landa þessu. Þetta var virkilega erfitt og ég viðurkenni það að það er erfiðara að koma inn á en að byrja leiki. Maður er alltaf að gera nýtt í þessu.“ Var hún sammála þessari ákvörðun hjá þjálfara liðsins? „Skynsemin segir já en auðvitað langar manni alltaf að spila. Þegar maður er orðin eldri og verður aðeins reyndari þá skilur maður frekar þessar ákvarðanir. Þegar maður var yngri hefði maður getað harkað þetta af sér en ég held að þetta hafi verið skynsamlegt hjá Jóa [Jóhanni Kristni Gunnarssyni] og ég var bara sammála þegar hann kom með þessa hugmynd,“ sagði Sandra. Sandra María er aðeins með eina ósk þegar hún var spurð út í undanúrslitin. „Ég ætla að óska mér heimavöll. Við erum búnar að fá tvo útileiki og við eigum skilið að fá heimaleik. Þetta er alltaf mikið ferðalag fyrir okkur og þannig náum við líka að minnka álag.“
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti