Þetta kemur fram í niðurstöðu fjármálaeftirlits Seðlabankans, sem birt var á vefsíðu Seðlabankans í dag.
Áður hafði Íslandsbanki tekið sáttaboði fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna ófullnægjandi varna gegn peningaþvætti. Bankinn viðurkenndi að brotin væru mörg og alvarleg.
Athugun á starfsemi Kviku hófst í febrúar á síðasta ári og niðurstaða lá fyrir í júní á þessu ári. Markmiðið var að leggja mat á skráningar og rekjanleika á upplýsingum í kerfum bankans í tengslum við millibankaviðskipti, reiðufjárviðskipti og millifærslur fjármuna milli landa, svo eitthvað sé nefnt.
Þá var, eftir því sem við átti, lagt mat á úrbætur sem gerðar hafa verið í kjölfar vettvangsathugunar hjá bankanum sem lauk í desember 2021.
Árið 2019 sektaði fjármálaeftirlitið Kviku um þrjár milljónir vegna þess að bankinn lét hjá líða að tilkynna fjármálaeftirliti um svonefnda hliðarstarfsemi bankans, eins og kveðið er á um að gera skuli í lögum um fjármálafyrirtæki.
Í úttektinni nú er áhættumati bankans á starfsemi og aðferðafræði að baki því talið að nokkru ábótavant. Sömuleiðis áhættumati á á samningssamböndum og einstökum viðskiptum.
Skjölun og utanumhaldi gagna bankans vegna áreiðanleikakönnunar var talið að nokkru ábótavant þar sem gögn voru geymd í mismunandi kerfum fyrir mismunandi vörur.
Þá var framkvæmd aukinna áreiðanleikakannana á áhættumeiri viðskiptamönnum talin verulega ábótavant.
„Í úrtaki fjármálaeftirlitsins voru 13 viðskiptamenn og voru auknar áreiðanleikakannanir og/eða skjalfesting þeirra í engum tilvikum fullnægjandi,“ segir í niðurstöðu fjármálaeftirlitsins.
Uppfærslu áreiðanleikakannanna, færslueftirliti bankans og skáningu og rekjanleika í upplýsingakerfum var einnig fundið ýmislegt til foráttu.
Fjármálaeftirlitið fer því fram á að bankinn myndi fela innri endurskoðanda að gera úttekt á hvort farið hafi verið að úrbótakröfum með fullnægjandi hætti og að gerði yrði grein fyrir úttektinni og niðurstöðum hennar í sérstakri skýrslu sem send yrði fjármálaeftirlitinu.