Unnar Már Ástþórsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við fréttastofu að rannsóknin sé í gagnaöflunarfasa.
„Við erum í gagnaöflun núna. Sjá hvort við finnum eitthvað til að upplýsa þetta á einhvern hátt,“ segir hann.
Hann segir málið hið ótrúlegasta og til marks um breytingar í íslensku þjóðfélagi.
„Það er ótrúlegt hvað er hægt ef maður hefur hugmyndaflugið í það. Við erum Íslendingar og erum í litlu samfélagi og treystum fólki kannski meira en við ættum að gera. Við erum bara vön því. En það er margt að breytast í okkar heimi,“ segir Unnar.
Almar Gunnarsson pípulagningameistari og eigandi Landslagna ehf. sagði í samtali við fréttastofu í gær að hann hafi komið á gámastæðið í gær og þar hafi enginn gámur verið. Hann hafi þá komist að því að ótilgreindur og óprúttinn aðili hefði beðið flutningaþjónustuna ET um að flytja gáminn á geymslusvæði á Hólmsheiði. Þar kom hann að gámnum tómum.
„Engar vendingar enn þá. Þetta er á borði rannsóknardeildar og þau eru að skoða þetta. Þau eru að reyna að finna einhver gögn til að geta haldið áfram með rannsóknina á þessu tímabili,“ segir Unnar.