Í nýju samkomulagi milli NBA og leikmannasamtakanna þá hefur það miklar fjárhagslegar afleiðingar fyrir félögin fari þau ákveðið mikið yfir launaþakið. Það er komið annað skattþrep.
Hingað til hafa sum félög sætt sig við að borga stórar upphæðir í skatt fyrir að vera yfir launaþakinu en nýi skatturinn sér til þess að félögin treysta sér ekki þangað. Það mun kosta þau alltof mikinn pening.
Peningurinn sem félögin, sem fara yfir launaþakið, borga í þennan refsiskatt er síðan skipt á milli þeirra félaga sem eru undir launaþakinu. Nýja skattþrepið margfaldar þessar greiðslur.
Þetta þýðir að sum félög hafa ákveðið að semja ekki aftur við leikmenn þrátt fyrir að vilja halda þeim. Los Angeles Clippers missti þannig Paul George og Denver Nuggets missti Kentavious Caldwell-Pope svo eitthvað sé nefnt. NBA fólk kallar þetta svuntuskattinn.
Búum nú í svuntu heimi
„Við búum nú í svuntu heimi. Við höfum séð félög, sem ætla sér að berjast um titilinn, missa frá sér leikmenn. Það er afleiðing þess að búa í þessum svuntu heimi. Gerir þetta erfiðara að skipta á leikmönnum? Já. Eru góð leikmannaskipti í boði? Nei,“ sagði Rob Pelink, framkvæmdastjóri Los Angeles Lakers sem hefur ekki tekist að styrkja lið sitt almennilega í sumar.
„Áhugafólk um NBA hefur verið að tala um þetta sem leiðinlegt sumar á markaðnum. Mér fannst það ekki vera það. Við sáum samt fullt af mikilvægum leikmönnum færa sig á milli félaga,“ sagði Adam Silver, hæstráðandi NBA deildarinnar.
„Á sama tíma þá tel ég að þetta nýja kerfi hjálpi öllum félögunum þrjátíu og gefi þeim betri tækifæri til að keppa um titilinn. Við erum á réttri leið þar,“ sagði Silver.
Sex félög meistarar á sex árum
Sex mismunandi félög hafa orðið NBA meistarar á síðustu sex árum og Silver telur að nokkrir samningar við leikmannasamtökin í röð hafi hjálpað til þess að fleiri félög keppi um titilinn.
„Þetta snýst um að við búum til sanngjarnt umhverfi þar sem að öll félög hafi verkfærin til að keppa um titilinn,“ sagði Silver.